Létust við að taka sjálfu á flóðasvæði

Mikil flóð hafa fylgt monsúnrigningunum sem hafa haft áhrif á …
Mikil flóð hafa fylgt monsúnrigningunum sem hafa haft áhrif á líf íbúa Indlands, Nepal og Bangladess. AFP

Tveir táningar í Bangladess létu lífið er þeir reyndu að taka sjálfu í straumhörðu flóðavatni. Mikil flóð eru nú í landinu í kjölfar monsúnrigninganna. 56 manns hafa látið lífið til þessa í flóðunum sem hafa haft áhrif á líf fimm milljóna manna.

Að sögn lögreglu voru drengirnir, sem voru 15 ára gamlir, að taka sjálfsmyndir í flóðavatni í bænum Melandah þegar harður straumurinn bar þá á brott.

„Skólinn var lokaður og vegurinn lá undir vatni og þeim fannst það því góð hugmynd að taka sjálfu með sér og flóðinu,“ sagði Mohan Talukder, skólastjóri í Umir Uddin-skólanum þar sem drengirnir voru við nám.

„Því miður greip sterkur straumur þá með sér og bar á brott. Nokkrir þorpsbúar reyndu að bjarga þeim og greip straumurinn raunar einn þeirra líka og bar á brott.“

Að sögn lögreglu fundu kafarar lík drengjanna eftir um sólarhrings leit.

Flóðin hafa áhrif á íbúa í nær helmingi landsins og hefur veðurstofan í landinu varað við því að ástandið kunni enn að versna, því tvær stórar ár hafi nú rofið bakka sína.

Búið er að opna um 1.500 neyðarskýli þar sem íbúar geta nálgast mat og hjálpargögn, en ekki hefur tekist að koma hjálpargögnum til þeirra svæða sem hafa orðið hvað verst úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert