Tók konu í gíslingu

Lögreglan var með mikinn viðbúnað á vettvangi og lokaði götum …
Lögreglan var með mikinn viðbúnað á vettvangi og lokaði götum að byggingunni. AFP

Hollenska lögreglan handtók í morgun karlmann sem hafði tekið konu í gíslingu í byggingu í bænum Hilversum þar sem margir fjölmiðlar eru til húsa. Rifrildi milli fólksins er sagt hafa byrjað á bílastæðinu fyrir utan bygginguna, segir Helen de Heer, talskona lögreglunnar.„Maðurinn hótaði konunni og svo fóru þau bæði inn í bygginguna,“ sagði hún í morgun.

Í kjölfarið handtók lögreglan manninn. Konan var heil á húfi.

Atvikið átti sér stað um klukkan sjö í morgun að staðartíma. Hilversum er skammt utan við Amsterdam og þar er útibú ríkissjónvarpsins sem og aðsetur nokkurra einkarekinna sjónvarpsstöðva og annarra fjölmiðlafyrirtækja. 

Lögreglan umkringdi bygginguna í morgun og engum var leyft að fara inn. Fram hefur komið í fréttum í Hollandi að maðurinn hafi verið vopnaður hnífi. Ekki er vitað hvort atvikið tengist einhverjum þeirra fjölmiðla sem eru í húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert