Tveir látnir í Barcelona

Lögreglubílar á Römblunni í Barcelona.
Lögreglubílar á Römblunni í Barcelona. AFP

Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir að sendiferðabíl var ekið inn í hóp gangandi vegfarenda á Römblunni í Barcelona.

The Telegraph greindi frá þessu. Stjórnvöld í borginni hafa jafnframt staðfest þetta. 

Dagblaðið El Pais segir að ökumaður sendiferðabílsins hafi flúið hlaupandi á brott.

Fregnir hafa borist af gíslatöku á tyrkneskum veitingastað í nágrenninu.

Miðað við myndbönd sem hafa verið tekin á Römblunni er fjöldi fólks slasaður. Verið að hlúa að tugum manna sem liggja á gangstéttinni. 

mbl.is

Búið er að loka nærliggjandi svæðum. Þó nokkrir sjúkrabílar og lögreglubílar eru á vettvangi, að sögn AFP-fréttastofunnar.

Lögreglan í Barcelona segir að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Ramblan er ein þekktasta gata borgarinnar og afar vinsæl meðal ferðamanna. Hún er 1,2 kílómetra löng og liggur um miðborg Barcelona.

Reuters-fréttastofan greinir frá því að óskað hafi verið eftir lokun neðanjarðarlestarstöðva í nágrenninu.

„Þetta var hræðilegt“

Marc Esparcia, tvítugur nemi sem býr í Barcelona, sagði við BBC: „Það var mikill hávaði og allir hlupu í skjól. Þarna var fjöldi fólks á ferli, mikið af fjölskyldum en þetta er einn vinsælasti staður Barcelona,“ sagði hann. „Ég held að þó nokkrir hafi orðið fyrir bílnum. Þetta var hræðilegt. Allir voru í mikill geðshræringu. Hræðilegt.“

Sjálfur sagðist hann vera í skjóli í kaffihúsi Starbucks.

Slökkviliðsmenn að störfum fyrir utan verslunarmiðstöð.
Slökkviliðsmenn að störfum fyrir utan verslunarmiðstöð. AFP

Hrópaði eftir börnunum sínum 

Aamer Anwar var að ganga eftir Römblunni þegar árásin var gerð og sagði hann við Sky News að þar hafi mikill fjöldi ferðamanna verið staddur.

„Allt í einu heyrði ég mikinn hávaða og öll gatan byrjaði að hlaupa af stað öskrandi. Ég sá konu hægra megin við mig sem hrópaði á eftir börnunum sínum,“ sagði hann.

„Lögreglan var mjög fljót á staðinn, lögreglumenn með byssur, kylfur allsstaðar.“

Steven Turner, sem starfar á svæðinu, sagði við BBC: „Fólk á skrifstofunni minni sá sendiferðabíl aka á fólk á Römblunni. Ég sá þrjár eða fjórar manneskjur liggja á jörðinni. Þarna var hellingur af sjúkrabílum og vopnuðum lögreglumönnum með árásarriffla.“

Mannskæð árás árið 2004

Hryðjuverkaárásir á borð við þær sem átt hafa sér stað í Frakklandi, Belgíu og Þýskalandi undanfarið hafa ekki orðið á Spáni í langan tíma.

Mannskæðasta árás öfgafullra íslamista í Evrópu til þessa varð þó í Madrid á Spáni árið 2004. Þá fórst 191 manneskja eftir sprengingar í neðanjarðarlestum borgarinnar. Hryðjuverkasamtökin a-Kaída lýstu yfir ábyrgð á þeirri árás.

AFP
Lögreglan biður fólk um að halda sig fjarri svæðinu þar …
Lögreglan biður fólk um að halda sig fjarri svæðinu þar sem árásin var gerð. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert