Var skilríkjunum hans stolið?

AFP

Spænska lögreglan hefur nafngreint einn af þeim sem hún telur að hafi staðið að hryðjuverkinu í Barcelona á Spáni dag. Maðurinn heitir Driss Oukabir, er 28 ára gamall og fæddur í Marokkó að því er segir á fréttavef breska dagblaðsins Guardian.

Þar segir hins vegar að Oukabir hafi sjálfur gefið sig fram við lögregluna eftir að mynd af honum var dreift og sagt henni að skilríkjum hans hefði verið stolið og að hann hefði hvergi komið að hryðjuverkinu. Skilríkin voru notuð til þess að leigja sendiferðabifreið sem notuð var til þess að aka á hóp gangandi vegfarenda í Barcelona.

Lögreglan hefur málið til rannsóknar en Oukabir hefur áður komið við sögu lögreglu samkvæmt fréttinni og meðal annars setið í fangelsi. Spænska lögreglan hefur ekki staðfest þá frásögn að Oukabir hafi af eigin frumkvæði gefið sig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert