Á annað hundrað látist í ökutækjaárásum

Sendiferðabíll var notaður til að keyra á fólk á Römblunni …
Sendiferðabíll var notaður til að keyra á fólk á Römblunni í gær. AFP

Ökutæki hafa verið notuð sem vopn í hryðjuverkaárásum víðs vegar um Evrópu á síðustu árum. Að minnsta kosti 14 manns lét­ust og yfir 100 særðust þegar sendibíl var ekið á hóp fólks á Römblunni í Barcelona í gær. Þetta er sjötta árásin af þessu tagi í Evrópu á einu ári og hafa allavega 165 manns látist og nokkur hundruð manns særst í árásunum.

Bifreið var ekið á hóp fólks í borginni Nice í Frakklandi í júlí í fyrra. Þá var sambærileg árás gerð á jólamarkað í Berlín í desember, auk árása af slíku tagi í Stokkhólmi og London fyrr á árinu.

Árið 2004 var gerð hryðjuverkaárás í Madríd, höfuðborg Spánar, þar sem 191 lést þegar sprengjur sprungu í fjórum lestum.

Lög­regl­an í Katalón­íu á Spáni leit­ar nú að hinum 17 ára gamla Moussa Ouka­b­ir, sem tal­inn er vera ökumaður sendi­ferðabíls­ins sem ekið var á hóp fólks á Römblunni í Barcelona í gær. Hann er talinn hafa flúið af vettvangi á öðrum bíl. 

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu árásinni fljótlega á hendur sér. Undafarið hafa hryðjuverkasamtökin gert árásir í Evrópu í þeim löndum sem hafa beitt sér gegn Ríki íslams í Sýrlandi og Írak.

Í frétt dagblaðsins Independent er bent á að fram að þessu hafi Spánn ekki verið talið líklegt til að vera ofarlega á lista samtakanna yfir þau lönd sem þau hyggjast ráðast á. Sérstaklega í ljósi þess að Spánn hefur ekki beitt sér gegn Ríki íslams í Sýrlandi og Írak með sambærilegum hætti og Bandaríkin og Frakkland hafa gert.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert