Fórnarlömbin af 18 þjóðernum

Sendiferðabifreiðin sem notuð var í hryðjuverkinu flutt af vettvangi í …
Sendiferðabifreiðin sem notuð var í hryðjuverkinu flutt af vettvangi í kvöld. AFP

Fólkið sem annað hvort lét lífið eða særðist í hryðjuverkaárásinni í Barcelona í dag, þar sem sendiferðabifreið var ekið á gangandi vegfarandur á Römblunni, var að minnsta kosti af 18 þjóðernum. Þetta kemur fram í frétt AFP en staðfest er að 13 hafi látist og yfir eitt hundrað særst. Embættismenn hafa sagt að tala látinna kunni að hækka.

Fórnarlömbin eru meðal annars frá Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Hollandi, Argentínu, Venesúela, Belgíu, Ástralíu, Ungverjalandi, Perú, Rúmeníu, Írlandi, Grikklandi, Kúbu, Makedóníu, Kína, Ítalíu og Alsír samkvæmt upplýsingum frá talsmanni stjórnvalda í Katalóníu en ekki fylgdi af hvaða þjóðernum þeir voru sem létu lífið í árásinni.

Engar upplýsingar hafa borist utanríkisráðuneytinu um að íslenskir ríkisborgarar séu á meðal þeirra sem létu lífið eða særðust í hryðjuverkinu. Hins vegar er ljóst að ýmsir Íslendingar voru á svæðinu og í sumum tilfellum rétt hjá þeim stað þar sem hryðjuverkið var framið. Þeim varð hins vegar ekki meint af vegna hryðjuverksins svo vitað sé.

Felldu nokkra hryðjuverkamenn

Tveir hafa verið handteknir vegna hryðjuverksins sem grunaðir eru um að tengjast því. Annar er frá Marokkó og hinn frá spænsku borginni Melilla á strönd Norður-Afríku. Hvorugur þeirra mun hins vegar hafa verið ökumaður sendiferðabifreiðarinnar og er hans enn leitað. Maður sem skotinn var við vegatálma er ekki talinn hafa tengst árásinni.

Sprenging sem varð í húsi í bænum Alcan­ar í morgun sem upphaflega var talið að hefði verið gassprenging en nú er talið að sprengjugerð hafi farið fram í húsinu. Einn lét lífið í sprengingunni og nokkrir urðu fyrir meiðslum. Spænska lögreglan segist hafa fellt nokkra hryðjuverkamenn í bænum Cambrils fyrir sunnan Barcelona í kvöld.

Talið er hugsanlegt að hryðjuverk hafi staðið til í Cambrils samkvæmt frétt AFP. Spænskir fjölmiðlar segja að 4-5 hryðjuverkamenn hafi verið felldir í bænum en það er óstaðfest. Óstaðfestar fregnir herma einnig að einhver fjöldi lögreglumanna hafi særst í átökunum. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti tengslin eru við hryðjuverkið í Barcelona.

Hryðjuverkið í Barcelona hefur verið fordæmt af þjóðarleiðtogum um allan heim sem hafa kallað eftir samstöðu gegn hryðjuverkum. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en samtökin hafa samhliða undanhaldi í Sýrlandi og Írak hvatt stuðningsmenn sína til hryðjuverka í þeim löndum þar sem þeir búa.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert