Handtóku þriðja manninn

Ferðamenn bíða eftir að komast aftur heim á hótel sín …
Ferðamenn bíða eftir að komast aftur heim á hótel sín eftir árásina á Römblunni Barcelona í gær. AFP

Lögreglan í Katalóníu á Spáni greindi frá því nú í morgun að hún hefði handtekið þriðja manninn í tengslum við hryðjuverkaárásina í Barcelona í gær. Tveir voru handteknir í gær  og var annar þeirra nafngreindur sem Driss Oukabir. Hann, líkt og sá sem lögregla handtók nú í morgun, var tekin var í borginni Ripoll, sem er um hundrað km. norður af Barcelona.

13 manns létust og rúmlega hundrað slösuðust þegar sendi­ferðabif­reið var ekið á hóp gang­andi veg­far­enda á Römblunni í Barcelona í gær­dag og eru þeir sem ým­ist létu lífið eða særðust af 24 þjóðern­um að sögn lög­reglu. Yngsta fórnarlambið er þriggja ára stúlka að því er Guardian greinir frá, en sex ára stúlka er einnig sögð vera alvarlega slösuð eftir árásina.

Tæknideild lögreglu að störfum í Cambrils, þar sem lögregla stöðvaði …
Tæknideild lögreglu að störfum í Cambrils, þar sem lögregla stöðvaði för bíls sem ók á gangandi vegfarendur. AFP

Lögregla leitar enn að ökumanni bílsins. Lögregla er þó einnig að rannsaka annan bíl, sem talið er að árásarmennirnir hafi notað til að flýja af vettvangi og fannst hann í bænum Vic, sem er um 80km norður af Barcelona.

Hafði dáið af stungusárum

Greint var frá því í nótt að lögregla hefði stöðvað bíl í Sant Just Desvern, nokkra kílómetra fyrir utan Barcelona, með því að skjóta ökumanninn. Nú í morgun greindi Joaquim Forn, innanríkisráðherra Spánar, frá því að að fórnarlambið hafi dáið af stungusárum. Maðurinn, sem var eigandi bílsins og ekki á sakaskrá. Talið er að bílnum hafi verið rænt og að bílræninginn hafi komist á brott og er hans nú leitað

Talið er mögulegt að málið tengist árásinni í Barcelona, sem og árásinni Cambrils og sprengingu sem varð í húsi í bænum Alcanar á miðvikudagskvöld, en svo virðist sem íbúar hafi verið að útbúa sprengjur.

Lögregla felldi fimm meinta hryðjuverkamenn í bænum Cambrils, um 100 km suður af Barcelona í gærkvöldið. Mennirnir voru saman í bíl sem ók á gangandi vegfarendur með þeim áfleiðingum að einn lést og sjö særðust, að sögn BBC, þar af einn alvarlega.

Eru mennirnir sagðir hafa verið með sprengibelti bundin við sig.

Javier Zaragoza aðalsaksóknari Hæstaréttar Spánar hefur greint frá því að enginn árásarmannanna sem nú eru í haldi vegna árásarinnar í Barcelona í gær, né þeir sem felldir voru í Cambrils í gærkvöldi, hefðu verið  þekktir vegna hryðjuverkatengsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert