Hvað er málið með þessar styttur?

Styttur af suðurrríkjahershöfðingjunum Robert E. Lee og Thomas Jackson fjarlægðar …
Styttur af suðurrríkjahershöfðingjunum Robert E. Lee og Thomas Jackson fjarlægðar úr almenningsgarði í Baltimore í Maryland. AFP

Meira en 150 ár eru liðin frá því að endir var bundinn á þrælastríðið í Bandaríkjunum en á síðustu dögum hefur það ítrekað verið rifjað upp í tengslum við styttur af herforingjum bandalags suðurríkjanna sem umræða hefur verið um að taka niður.

Þrælastríðið var borgarastyrjöld í Bandaríkjunum sem stóð yfir á árunum 1861 til 1865. Í því börðust ellefu suðurríki fyrir sjálfstæði við her sambandsstjórnarinnar (norðurríkjanna) sem vildu sameiningu allra ríkjanna og leggja niður þrælahald í landinu öllu.

Mikið mannfall varð í stríðinu en til að gera langa sögu stutta þá fóru norðurríkin með sigur af hólmi, Bandaríkin voru sameinuð og þrælahald afnumið.

Reistar áratugum eftir stríð

Stytturnar af leiðtogum suðurríkjanna voru hins vegar flestar ekki reistar á opinberum stöðum fyrr en áratugum síðar eða við upphaf 20. aldarinnar. Á þeim tíma höfðu ríki í suðri sett  lög sem takmörkuðu réttindi svartra sem áður höfðu verið þrælar í landinu. Með lögunum, sem kennd eru við Jim Crow, var aðskilnaður svartra og hvítra festur í sessi allt til ársins 1965. Aðskilnaðurinn náði m.a. til almenningssamgangna og skóla.

Fleiri styttur voru svo reistar er barátta fyrir jöfnum réttindum svartra og hvítra náði hápunkti á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Í dag eru meira en 700 minnismerki í Bandaríkjunum sem tengjast bandalagi suðurríkjanna. Langflest þeirra eru í ríkjunum í suðri, m.a. Virginíu þar sem hvítir rasistar mótmæltu niðurrifi þeirra um síðustu helgi.

Stytta af einum þekktasta hershöfðingja suðurríkjahers, Thomas Jackson, á meðal …
Stytta af einum þekktasta hershöfðingja suðurríkjahers, Thomas Jackson, á meðal brjóstmynda af „framúrskarandi Bandaríkjamönnum“ við háskóla í Bronx-hverfinu í New York. AFP

Í fréttaskýringu BBC um málið kemur fram að sum minnismerkin séu helguð fótgönguliðum suðurríkjahersins en önnur eru af þekktum hershöfðingjum eins og Robert E. Lee og Thomas Jackson.

Að undanförnu hafa raddir um að taka þessar styttur niður orðið háværari og málið verið ræt í borgarráðum, m.a. í Charlottesville þar sem ákveðið var að taka styttuna af Lee niður.

 Kveikjan var m.a. mannskæð árás á kirkju svartra í Suður-Karólínu árið 2015, 150 árum eftir að þrælastríðinu lauk. Níu létust. Á myndum sem birtar voru af árásarmanninum bar hann fána bandalags suðurríkjanna. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórn Suður-Karólínu að fjarlægja fánann af þinghúsinu og fleiri fóru að dæmi hennar.

Stjórnir einstakra ríkja Bandaríkjanna hafi ekki allar vald til að ákveða niðurrif styttnanna upp á sitt einsdæmi. Ákvörðunin þarf að koma frá alríkisstjórninni. Það breytir því ekki að hópar fólks hafa rifið niður minnismerki, m.a. styttur, í nokkrum ríkjum, s.s. í Ohio, Norður-Karólínu og Maryland. Hefur verknaðurinn stundum verið framinn í skóli nætur.

Til minningar um þrælahald eða afnám þess?

Þeir sem verja minnismerki bandalags suðurríkjanna segja að þau eigi ekki að syrgja afnám þrælahaldsins. Stríðið hafi verið háð til að berjast fyrir réttindum ríkjanna gegn alríkisstjórninni. Þá segja þeir að fáni suðurríkjanna tengist sögu þeirra og menningu.

En margir sagnfræðingar eru á öðru máli. Þeir segja að stríðið hafi að miklu leyti snúist um rétt ríkjanna til að halda þræla. Þá finnst mörgum minnismerkin móðgandi og særandi.

Paul LePage, ríkisstjóri Maine, segir að niðurrif styttnanna sé tilraun til að hvítþvo söguna. „Hvernig geta komandi kynslóðir lært ef við þurrkum söguna út?“ Sagði hann að niðurrifið væri sambærilegt því að fjarlægja minnismerki um árásina á Tvíburaturnana í New York.

Stytta af Alexander Hamilton Stephens, sem var varaforseti banalags suðurríkjanna …
Stytta af Alexander Hamilton Stephens, sem var varaforseti banalags suðurríkjanna í þrælastríðinu í þinghúsinu í Washington. AFP

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur spurt hvar niðurrifið endi. Verða minnismerki og styttur af Thomas Jefferson og George Washington næstar? 

Flestir vilja að stytturnar standi

Í könnun sem Marist gerði í vikunni kemur fram að 62% Bandaríkjamanna vilja að stytturnar fái að standa sem „söguleg minnismerki“ og 44% svartra sem spurðir voru í könnuninni taka undir það sjónarmið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tók svo þátt í umræðunni og skrifaði á Twitter að minnismerkin væru „falleg“ og það yrði sorglegt ef þau yrðu tekin niður. Þeirra yrði „saknað mikið“.

Afkomendur suðurríkjahershöfðingjans Thomas Jackson eru á öðru máli. Þeir vilja að styttan af honum, sem stendur í höfuðborg Virginíu, verði tekin niður. Þeir segja í yfirlýsingu að mótmæli hvítra rasista í Charlottesville hafi sýnt að þeir noti stytturnar sem táknmynd í málsstað sínum.

Afkomandi Roberts Lee tók í sama streng og sagði að minning hans væri misnotuð af þeim sem breiða út boðskap umburðarleysis og haturs.

Stytta af hershöfðingjanum Thomas Stonewall Jackson stendur við þinghúsið í …
Stytta af hershöfðingjanum Thomas Stonewall Jackson stendur við þinghúsið í Virginíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert