Mikill samhugur í Barcelona

Fjölmargir sýndu samhug í verki.
Fjölmargir sýndu samhug í verki. Ljósmynd/Einar Ragnarsson

„Það er eins og fólk láti þetta ekki á sig fá og maður skynjar mikla samstöðu. Kaffihúsin eru opin og það er iðandi mannlíf. Það er mikil öryggisgæsla og blaðamenn eru alls staðar,“ segir Einar Ragnarsson sem er í fríi í Barcelona á Spáni ásamt konu sinni. Hann segir mikinn samhug vera í borginni daginn eftir hryðjuverkaárásina í gær þar sem að minnsta kosti 14 manns létu lífið og yfir hundrað manns slösuðust. 

Blóm og kerti fengu að loga í dag.
Blóm og kerti fengu að loga í dag. Ljósmynd/Einar Ragnarsson

Í dag röltu þau hjónin niður Römbluna og stöldruðu við þar sem árásin átti sér stað. Þar var fjölmennt og hafði fólk kveikt á kertum og lagt blómsveig á staðinn þar sem fólkið lést. Fyrr um daginn hafði verið þriggja mínútna þögn verið þar til að minnast fórnarlambanna. 

Í gær var eini dagurinn sem þau hjónin ákváðu að ganga ekki niður Römbluna heim á hótelið sitt á Römblunni sem þau hafa dvalið á síðustu vikuna. „Við ákváðum að fara aðra leið heim á hótelið aldrei slíku vant,“ segir Einar. Fljótlega eftir að þau komu upp á hótelherbergið sáu þau fjölmarga lögreglu- og sjúkrabíla aka um langt fram á kvöld þar sem leit stóð yfir að árásarmönnunum.     

Ljósmynd/Einar Ragnarsson

„Manni er hálf brugðið. Þetta situr aðeins í manni og maður finnur til með fórnarlömbunum,“ segir Einar sem er rólegur yfir þessu. Þau hjónin ætla að verða viku í viðbót á Spáni en munu hugsanlega breyta ferðaáætlunum sínum vegna hryðjuverkanna. „Við ætluðum að ferðast og skoða litlu þorpin í nágrenni Barcelona en ég veit ekki alveg hvað við gerum. Það kemur í ljós.“ 

Ljósmynd/Einar Ragnarsson
Ljósmynd/Einar Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert