Trump vísaði til kúlna í svínablóði

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti leggur til að íslamskir hryðjuverkamenn verði teknir af lífi með byssukúlum böðuðum í svínsblóði. Vísaði hann til þessarar aðferðar í færslu á Twitter í gær í kjölfar árásarinnar í Barcelona.

Fljótlega eftir voðaverkin í spænsku borginni í gær skrifaði Trump á Twitter að Bandaríkin fordæmdu árásina og að þau myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að aðstoða. „Verið ákveðin og sterk, við elskum ykkur!“ skrifaði forsetinn.

Skömmu síðar fylgdi önnur færsla frá honum þar sem hann vísaði til hershöfðingjans Johns Pershing. „Skoðið hvað Pershing hershöfðingi Bandaríkjanna gerði við hryðjuverkamenn sem náðust. Það kom ekki fram öfgafullt, íslamskt hryðjuverk í 35 ár!“

Í færslunni var Trump að vísa til ummæla sem hann lét falla í kosningabaráttu sinni í febrúar á síðasta ári. Þá ræddi hann um meinta aðferð Pershings í baráttunni við öfgamenn og lagði til að þannig ætti að fara með hryðjuverkamenn. Sagði Trump að í Moro-uppreisninni á Filippseyjum á árunum 1901-1913 hafi hershöfðinginn tekið íslamska skæruliða af lífi með byssukúlum sem dýft hafði verið í svínablóð.

Í frétt Telegraph um málið segir að staðreyndin sé hins vegar sú að enginn sagnfræðingur telji að hershöfðinginn hafi gert einmitt þetta. Þeir segja að gerðar hafi verið tilraunir til að móðga og særa filippseyska múslíma í átökunum en að engar sannanir séu fyir því að kúlurnar hafi verið baðaðar svínablóði. Þetta kom m.a. fram í ítarlegri greiningu Politifact sem gefur sig út fyrir að sannreyna ummæli fólks sem birt eru opinberlega. Í henni benda sagnfræðingar líka á að ekki sé rétt hjá Trump að friður hafi komist á í kjölfar hinna meintu aftaka á Filippseyjum.

Einnig er fjallað um málið á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert