Tyrknesk og þýsk stjórnvöld deila

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. …
Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Mynd úr safni. AFP

Tyrkir eru ósáttir við viðbrögð þýskra stjórnvalda af afskiptasemi Tyrkja af þingkosningunum sem fara fram í Þýskalandi þann 24. september næstkomandi. Recep Tayyip Erdogan hvatti á dögunum alla Tyrki búsetta í Þýskalandi til að kjósa gegn ríkisstjórnarflokkunum þremur í Þýskalandi; Kristilegum, Jafnaðarmönnum og Græningjum.

Yfirlýsing Erdogans vakti hörð viðbrögð hjá þýskum stjórnvöldum enda sagði hann flokkana þrjá „óvini Tyrklands“. Talsmaður Angelu Merkel kanslara sagði þýsk stjórnvöld gera þær væntingar til annarra ríkja að þau hefðu ekki afskipti af innanríkimálum landsins og Sigmar Gabriel utanríkisráðherra fordæmdi afskiptasemina. Nýr leiðtogi Jafnaðarmanna gekk lengra og sagði Erdogan hafa tapað öllum trúverðugleika.

Aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, Bekir Bozdag, sagði í morgun að viðbrögð Þjóðverjanna væru hrokafull og dónaleg. Hann sagði forsætisráðherrann ekki hafa skipt sér af innanríkismálum Þýskalands heldur hafi hann einungis beint orðum sínum að Tyrkjum í landinu. 

Þá sagði hann Þýskaland hafa haft afskipti af þjóðaratkvæðagreiðslunni í Tyrklandi í apríl sl. og mjög augljóslega hefðu þýsk stjórnvöld stutt „Nei“-fylkinguna. Þá benti hann jafnframt á að Þýskaland hafi veitt félagsmönnum Verkamannaflokks Kúrda, PKK, hæli í landinu þrátt fyrir að þeir væru eftirlýstir í Tyrklandi og að ríkisstjórnin styðji PKK en Tyrkir skilgreina samtökin sem hryðjuverkahóp.

Um 1,2 milljónir manna af tyrkneskum uppruna eru kjörgengir í þýsku kosningunum í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert