Heræfingin „olía á eldinn“

Kim Jong-un sagðist hættur við árás á Gvam í bili.
Kim Jong-un sagðist hættur við árás á Gvam í bili. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja að Bandaríkjamenn séu að hella olíu á eldinn með því að taka þátt í sameiginlegri heræfingu í Suður-Kóreu í næstu viku. Spenna á Kóreuskaga og við Bandaríkin hefur magnast mikið síðustu vikur og mánuði.

Norður-Kóreumenn gerðu tilraunir með langdrægar eldflaugar í síðasta mánuði sem Bandaríkjamenn og fleiri voru mjög ósáttir við. Í kjölfarið varaði Donald Trump Bandaríkjaforseti Norður-Kóreu við því að öllum hótunum yrði svarað með „eldi og brennisteini“ á þann hátt að heimurinn hefði aldrei séð annað eins.

Þá tóku stjórnvöld í Norður-Kóreu upp á því að hóta því að gera árás á herstöðvar Bandaríkjamanna á Kyrrahafseyjunni Gvam. Þar sem eyjan tilheyrir Bandaríkjunum myndi árás á hana jafngilda árás á Bandaríkin. Kim Jong-un bakkaði svo með þær hótanir í síðustu viku, setti þær í það minnsta á ís, þar til hann sæi hver næsti leikur Bandaríkjamanna yrði.

Á morgun hefst sameiginleg heræfing Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna. Þúsundir hermanna beggja ríkja munu taka þátt í henni. Þetta líta stjórnvöld í Norður-Kóreu á sem ógn.

„Þessi sameiginlega æfing er afdráttarlausasta merki um fjandskap við okkur og enginn getur tryggt að þessi æfing verði ekki að raunverulegum átökum,“ segir í leiðara blaðsins Rodong Sinmun, málgagns stjórnvalda Norður-Kóreu. Þá sagði í leiðaranum að æfingin væri eins og olía á eldinn og myndi gera illt verra á Kóreuskaga.

Svo var varað við „óstjórnlegu stigi kjarnorkustríðs“ á skaganum. „Ef Bandaríkjamenn eru villtir í draumaheimi um að stríð á skaganum sé á þröskuldi annarra handan Kyrrahafsins, þá skjátlast þeim.“

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu hafa haldið sameiginlegar heræfingar frá árinu 1976. Þau segja að æfingin nú verði gerð samkvæmt áætlun. 

Um 17.500 bandarískir hermenn taka þátt í æfingunni í ár. Enn fleiri tóku þátt á síðasta ári. Fjölmiðlar í Suður-Kóreu segja að Bandaríkjamenn séu þó hættir við að sigla tveimur flugmóðurskipum að Kóreuskaga. 

Yfirmenn hersins í Suður-Kóreu hafa varað stjórnvöld í norðri við því að sýni þeir merki um árásir verði þeim svarað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert