Brenndu „nornir“ lifandi

Frá Tansaníu.
Frá Tansaníu. AFP

Þrjátíu og tveir karlmenn voru í dag leiddir fyrir dómara í Tansaníu, en þeim hefur verið gefið að sök að hafa brennt fimm konur lifandi í þeirri trú að þær væru nornir.

Mennirnir eru á aldrinum 18 til 75 ára, en í þeirra hópi eru nokkrir embættismenn Uchama-héraðs, sem staðsett er um 50 kílómetra suðaustur af fjallinu Kilimanjaro. Aðalmeðferð í máli gegn þeim hefst 4. september.

„Í dag sagði saksóknari að mennirnir 32 hefðu tekið þátt í morðunum á fimm konum, með því að hafa barið þær og brennt þær svo til dauða,“ sagði heimildarmaður í samtali við AFP-fréttastofuna.

Sumir mannanna játuðu sekt sína fyrir dómi í dag en aðrir neituðu. Segja mennirnir að konurnar hafi eitrað fyrir öðru fólki.

Það er ekki óalgengt að fólk sem sakað er um að vera nornir sé myrt í Tansaníu. Mannréttindasamtök í landinu hafa áður sagt að um 500 manns séu myrtir fyr­ir galdra í landinu árlega. Oft­ar en ekki sé um að ræða eldri kon­ur með rauðsprung­in augu sök­um elda­mennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert