Hart tekist á um jafnrétti til hjónabands

AFP

Einn helsti yfirmaður kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu varar starfsmenn heunnar við afleiðingunum ef þeir snúi baki við hefðbundnum gildum kaþólsku kirkjunnar um að hjónaband sé staðfesting á sambandi karls og konu. Ekki fólks af sama kyni.

Ástralar ganga að kjörborðinu í næsta mánuði þar sem greidd verða atkvæði um hvort heimila eigi fólki af sama kyni að ganga í hjónaband. Hart hefur verið deilt um málið í Ástralíu undanfarin ár en niðurstaða kosninganna er ekki bindandi fyrir stjórnvöld. Flestir Ástralar styðja jafnrétti til hjónabands en þeir sem eru mest til hægri í stjórnmálum og háttsettir einstaklingar innan kirkjunnar hafa lýst yfir andstöðu sinni. 

Erkibiskupinn í Melbourne, Denis Hart, varaði starfsfólk kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu við því að þeir myndu hætta starfi sínu ef þeir sneru baki við hugmyndum kirkjunnar um hjónaband konu og karls. Hann hvetti bæði skólamenn og presta til þess að boða áfram skoðanir kaþólsku kirkjunnar á hjónaböndum. Allt annað yrði litið alvarlegum augum.  
Telja ýmsir að með þessu sé Hart að boða uppsagnir þeirra sem fylgi ekki þessum skoðunum kirkjunnar.

Alls starfa rúmlega 180 þúsund manns hjá kaþólsku kirkjunni í Ástralíu. Þar á meðal kennarar, læknar og hjúkrunarfræðingar. 

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, styður jafnrétti fólks til hjónabands en ekki eru allir flokksbræður hans sammála. Fyrrverandi forsætisráðherra, Tony Abbott, er einn þeirra sem tala mest gegn hjónaböndum samkynhneigðra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert