Litlar vinsældir Karls Bretaprins

Karl Bretaprins og eiginkona hans Camilla.
Karl Bretaprins og eiginkona hans Camilla. AFP

Vinsældir Karls Bretaprins eru á hraðri niðurleið ef marka má skoðanakönnun sem birt var í dag. 

Samkvæmt könnun YouGov telja 36% Breta að Karl hafi staðið sig vel en fyrir fjórum árum voru 60% á þeirri skoðun.

20 ár verða liðin frá andláti Díönu prinsessu 31. ágúst. Penny Junor, álitsgjafi þegar kemur að bresku konungsfjölskyldunni, segir að Karl hafi átt erfiða tíma. Honum hafi aldrei verið fyrirgefið að hjónaband hans og Díönu rann út í sandinn. Hún sakaði hann alltaf um að hafa borið ábyrgð á því og hann hafi aldrei varið sig. 

Junor segir að undanfarna tvo áratugi hafi líf Karls tekið stakkaskiptum. Hann sé miklu hamingjusamari, afslappaðri og sjálfstraust hans hafi aukist til muna. „Ég hélt að hann væri vinsælli en þetta,“ segir hún.

En enn á ný sé Karl settur í neikvætt ljós fjölmiðla nú 20 árum eftir andlát Díönu. Meðal annars hafa verið birtar upptöku af Díönu þar sem hún lýsir ástlausu hjónabandinu og ástarsambandi hans með Camilla Parker Bowles, sem er eiginkona hans í dag.

Aðeins 18% Breta eru ánægðir með Camillu en fyrir fjórum árum naut hún vinsælda meðal 28% þjóðarinnar.

Vilhjálmur og Harry eru hins vegar vinsælir meðal almennings og eru 78% jákvæð í garð Vilhjálms og 77% í garð Harry.

Díana prinsessa.
Díana prinsessa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert