Ortega boðið hæli í Kólumbíu

Luisa Ortega mun líklega sækja um hæli í Kólumbíu.
Luisa Ortega mun líklega sækja um hæli í Kólumbíu. AFP

Stjórnvöld í Kólumbíu ætla að bjóða Luisu Ortega, sem var rekin sem ríkissaksóknari Venesúela, hæli í landinu ef hún óskar eftir því.

Ortega flúði til Kólumbíu eftir að hafa gagnrýnt Nicolas Maduro, forseta Venesúela, harðlega.

„Luisa Ortega er undir verndarvæng kólumbísku ríkisstjórnarinnar. Ef hún óskar eftir hæli munum við veita henni það,“ sagði Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, á Twitter.

Starfsmenn innflytjendastofnunar Kólumbíu sögðu að Ortega hafi komið til landsins á föstudaginn með eiginmanni sínum, þingmanninum German Ferrer, með einkaflugvél frá eyjunni Aruba í Karíbahafi.

Hæstiréttur Venesúela hefur gefið út handtökuskipun á hendur Ferrer.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert