Vísa 106 ára flóttakonu úr landi

Johannes Jansson/norden.org

Sænska Útlendingastofnunin ætlar að vísa 106 ára gamalli flóttakonu frá Afganistan úr landi en hún rataði í fréttir fjölmiðla víða um heim haustið 2015 þegar hún kom í flóttamannabúðir í Króatíu ásamt syni sínum og barnabarni.

Bibikhal Uzbek er elsti flóttamaðurinn sem hefur komið til Svíþjóðar en hún er búsett í Hova í Gullspångs, segir í frétt sænska ríkisútvarpsins. Í júní synjaði Útlendingastofnun henni og fjölskyldunni um hæli í Svíþjóð þar sem þau kæmu frá öruggu svæði í Afganistan. Þegar fjölskyldan fékk fréttirnar fékk Bibikhal heilablóðfall og hefur síðan verið meira og minna út úr heiminum. Hún verður 107 ára í nóvember en ekki er vitað hvort sænsk yfirvöld verða búin að vísa henni úr landi þá.

Mohammadullah Uzbek, sonur Bibihal, segir að þau hafi verið svo hamingjusöm þegar þau komust til Svíþjóðar. Lands þar sem þau gátu sofið í þögn og ró. Ekkert stríð og þau þurftu ekki að óttast um líf sitt. Það eina sem fjölskyldan átti við komuna var hjólastóll Bibikhal sem fjölskyldan fékk við komuna til Þýskalands árið 2015.

Sonur hennar hefur áhyggjur af framhaldinu og hvernig verði hægt að vísa henni úr landi í því ástandi sem hún er í. Hún sjái hvorki né heyri og það eina sem hún geri sé að liggja sofandi uppi í rúmi.

Frétt sænska sjónvarpsins í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert