Á dauðarefsingu yfir höfði sér

Ahmadreza Djalali.
Ahmadreza Djalali. AFP

Réttarhöld yfir prófessor sem er búsettur er í Stokkhólmi, en hefur verið í haldi í Íran frá því í apríl í fyrra, eru að hefjast í Teheran. Ahmadreza Djalali er sakaður um njósnir og á hann yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur.

Mannúðarsamtökin Amnesty International segja ákæruna byggja á afar veikum grunni en Djalali er sakaður um bæði njósnir og andúð á Guði. Hann var handtekinn í Teheran þegar hann sótti þar ráðstefnu í fyrra.

Djalali er íranskur borgari en með langtímadvalarleyfi í Svíþjóð. Þar starfar hann við læknarannsóknir við Karolinska. Hann er kvæntur og tveggja barna faðir og býr fjölskyldan alfarið í Svíþjóð.

Amnesty International hvetur stjórnvöld í Íran að láta Djalali lausan eða að veita honum sanngjarna meðferð fyrir dómstólum. Réttarhöldin áttu að hefjast í byrjun ágúst en var frestað vegna veikinda dómarans. Fulltrúi sænska utanríkisráðuneytisins óskaði eftir heimild til þess að vera viðstaddur réttarhöldin en var synjað. Eins hefur ekki fengist heimild til þess að heimsækja hann í fangelsið þar sem hann hefur dvalið í tæplega eitt og hálft ár.

Frétt Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert