Ráðherrafrú „taggar“ tískufatnað sinn

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Louise Linton eiginkona hans.
Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Louise Linton eiginkona hans. AFP

Louise Linton, eiginkona Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, baðst í dag afsökunar á færslu sem hún birti á Instagram og gagnrýnd hefur verið fyrir smekkleysi.

Linton birti á mánudag mynd sem sýnir þau Mnuchin koma frá borði flugvélar sem er í eigu bandarískra stjórnvalda. Linton „taggaði“ þar fatnaðinn og fylgihlutina sem hún klæddist, m.a. Tom Ford-sólgleraugun, Hermes-hálsklútinn og Valentino-skóna.

Hjónin voru að sögn Reuters á leið heim úr ferð til Kentucky þar sem Mnuchin hafði ávarpað viðskiptaráðið í Louisville og heimsótt gullgeymslur Bandaríkjanna í Fort Knox.

Talið er að um 18,5% íbúa Kentucky lifi undir fátækramörkum.

Einn Instagram-notandi, jennimiller29, gagnrýndi Linton og sakaði hana um eyðslu á almannafé. „Gott að við gátum borgað fyrir fríið ykkar,“ skrifaði Miller. „Hélstu að þetta væri frí?“ svaraði Linton. „En sætt. Hélstu að Bandaríkjastjórn borgaði fyrir brúðkaupsferð okkar eða ferðalög?!!!  Lololol.“

Þá sagði hún þau Mnuchin leggja meira til samfélagsins en Miller, þar sem að þau væru efnaðri. „Hefur þú látið meira af hendi til efnahagslífsins en ég og maðurinn minn? Annaðhvort sem launþegi í skattagreiðslur eða í fórnarkostnað fyrir þjóð þína?“ hélt hún áfram. „Ég er nokkuð viss um að við fórnum meiru árlega en þú værir tilbúin að gera ef valið væri þitt.“

„Þú ert alveg dásamlega veruleikafirrt.“

Nú í morgun var búið að fjarlægja færslu Linton af Instagram og var reikningur hennar aukinheldur ekki lengur opinn almenningi. Þá sendi hún frá sér afsökunarbeiðni nú síðdegis og sagði póst sinn hafa verið óviðeigandi og sýndi tilfinningaleysi.

Talsmaður fjármálaráðuneytisins greindi AFP-fréttastofunni frá því að hjónin muni endurgreiða stjórnvöldum fyrir ferðakostnað Linton, sem aukinheldur fái ekki greitt fyrir varninginn sem hún nefndi í pósti sínum.

Mnuchin er einn efnaðasti ráðherrann í stjórn Donald Trumps Bandaríkjaforseta og raunar efnaðasti maður til að gegna ráðherraembætti í Bandaríkjunum um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert