Skyndiskilnaðir brjóta gegn stjórnarskrá

Það er ekki nóg að segja skilnaður þrisvar.
Það er ekki nóg að segja skilnaður þrisvar. AFP

Æðsti dómstóll Indlands hefur lagt bann við því að karlmenn geti fengið skilnað með hraði frá konum sínum þar sem slíkir skilnaðir brjóti gegn stjórnarskrá landsins. 

Ind­land er eitt fárra ríkja í heim­in­um þar sem karl­ar sem eru mús­lim­ar geta skilið við eig­in­konu sína á nokkr­um mín­út­um. Það eina sem þeir þurfa er að að segja orðið talaq (skilnaður) þris­var. 

Slíkir skilnaðir hafa enga trúarlega þýðingu og brjóta gegn stjórnarskrárvörðu siðferði, segir í dómi hæstaréttar. Fimm dóm­ar­ar eru í hæsta­rétti við mál­flutn­ing­inn og er eng­inn þeirra sömu trú­ar. Einn er hindúi, einn síki, einn krist­inn, einn zaraþústra­trú­ar og sá fimmti mús­limi. 

Í dómi þeirra segir að það sé augljóslega gerræðisleg ákvörðun að heimila manni að rjúfa hjónaband vegna kenja og duttlunga viðkomandi. Það sem þyki synd samkvæmt einhverjum trúarbrögðum hefur ekki gildi fyrir lögum, segja þeir.

Ein þeirra sem hef­ur gagn­rýnt slíka skyndiskilnaði er Shay­ara Bano, 35 ára tveggja barna móðir. Í viðtali við BBC lýs­ir hún því þegar hún heim­sótti for­eldra í Utt­arak­hand-héraði og leitaði sér lækn­inga. Á meðan hún dvaldi þar í októ­ber 2015 fékk hún bréf frá eig­in­mann­in­um sem til­kynnti henni að hann væri að skilja við hana. Síðan þá hef­ur hún ekki getað náð sam­bandi við eig­in­mann sinn til 15 ára en hann býr í borg­inni Alla­habad.

„Hann slökkti á sím­an­um sín­um og mér tókst ekki að ná sam­bandi við hann,“ seg­ir hún í viðtali við BBC. Hún seg­ir að þetta hafi haft öm­ur­leg áhrif á líf barna þeirra í kjöl­farið. Í fyrra sendi hún hæsta­rétti bréf þar sem hún krafðist þess að slík­ir skyndiskilnaðir yrðu bannaðir. Enda heim­ili þeir mús­lim­um að koma fram við kon­ur sín­ar eins og bú­pen­ing.

Þrátt fyr­ir að skyndiskilnaðir hafi verið stundaðir ára­tug­um sam­an er ekk­ert minnst á þá í saria-lög­um né Kór­an­in­um. Fræðimenn í ís­lömsk­um fræðum segja að í Kór­an­in­um sé ná­kvæm­lega út­listað hvernig megi standa að skilnaði. Ferli sem taki þrjá mánuði svo hjón fái tíma og næði til þess íhuga og að ná sátt­um. 

Aðgerðarsinn­ar segja að flest mús­lima­lönd, svo sem Pak­ist­an og Bangla­dess, hafi bannað slíka skyndiskilnaði en þeir séu enn leyfðir á Indlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert