Tugir látnir í loftárásum á Raqqa

Frá al-Sabahiya-hverfinu í Raqqa.
Frá al-Sabahiya-hverfinu í Raqqa. AFP

Tugir almennra borgara hafa látist í loftárásum Bandaríkjahers og bandamanna á sýrlensku borgina Raqqa undanfarna tvo daga. Borgin hefur verið undir stjórn vígasamtakanna Ríkis íslams í meira en þrjú ár.

Að minnsta kosti 250 loftárásir hafa verið gerðar á borgina og nágrenni undanfarna viku. Hersveitir stjórnarandstæðinga, Sýrlenski lýðræðisherinn (SDF), hefur náð um 60% af borginni á sitt vald. Bandaríkjaher styður SDF en hermennirnir koma úr ýmsum áttum.

Ríki íslams ræður yfir um 10 ferkílómetra svæði í hjarta borgarinnar en undanfarið hafa bardagarnir færst nær miðborginni. 

Í gær létust að minnsta kosti 42 almennir borgarar í nokkrum hverfum Raqqa í loftárásum Bandaríkjahers og SDF. Þar af eru 19 börn. 

AFP

Frá 14. ágúst hafa 167 almennir borgarar látist í árásum SDF og Bandaríkjahers á borgina. Árásirnar hafa hæft miðborgina þar sem fjöldi fólks hefst við.

Samtök sem fylgjast grannt með mannfalli í Sýrlandi segja að í miðborginni séu hús þar sem fjölmargir borgarar hafast við þar sem fólk reyndir að forðast víglínuna. En nú hafi hún færst nær miðju borgarinnar.

Fleiri hundruð almennir borgarar hafa látist í loftárásum Bandaríkjamanna í Írak og Sýrlandi á svæðum sem voru eða eru undir yfirráðum Ríkis íslams. Að minnsta kosti 330 þúsund Sýrlendingar hafa látist síðan stríðið braust þar út fyrir sex árum. Inni í þeirri tölu eru ekki þeir sem er saknað. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert