Tveir látnir í jarðskjálfta á Ítalíu

Björgunarsveitarmenn að störfum á ítölsku eyjunni Ischia.
Björgunarsveitarmenn að störfum á ítölsku eyjunni Ischia. AFP

Að minnsta kosti tveir hafa látið lífið í jarðskjálfta sem mæld­ist 4 stig að stærð á ít­ölsku eyj­unni Ischia, skammt und­an strönd Napólí, í gærkvöld. Alls slösuðust 39 manns þegar fjöldi bygginga hrundi. Tvær konur eru á meðal hinna látnu. BBC greinir frá. 

Björgunarsveitir vinna hörðum höndum að því að bjarga fólki úr rústum húsanna. Þær unnu mikið björgunarafrek þegar þær losuðu tæplega sjö mánaða gamalt barn úr rústunum. Þær reyna nú að bjarga tveimur bræðrum barnsins sem eru fastir undir rúmi í húsinu sínu sem hrundi en ná að hafa samskipti við björgunarsveitarmenn gegnum síma.   

Á eyjunni búa um 50 þúsund manns sem er vinsæl meðal ferðamanna einkum á þessum tíma. Þegar skjálftinn reið yfir var mikill fjöldi á veitingastöðum í bæn­um Ca­samicciola og búðir voru enn opn­ar. Mikil örvinglan greip um sig og fólk þusti um götur bæjarins.  

Fjölmörg hús hrundu til grunna og einnig ein kirkja. Eldri kona lést þegar brak hrundi úr kirkjunni yfir hana. Hin konan sem lést fannst undir rústum húss sem hrundi.  

Jarðskjálft­ar eru al­geng­ir á Ischia. Mann­skæðasti skjálft­inn sem riðið hef­ur yfir eyj­una var skjálfti upp á 5,8 sem varð rúm­lega 2.000 manns að bana árið 1883.

Íbúar og ferðamenn voru fluttir af eyjunni í nótt.
Íbúar og ferðamenn voru fluttir af eyjunni í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert