Fann handsprengju í ruslinu

Þýskur skriðdreki í seinni heimsstyrjöldinni.
Þýskur skriðdreki í seinni heimsstyrjöldinni. Ljósmynd/Þýska þjóðskjalasafnið

Lögreglan í Austurríki ítrekaði fyrir almenningi í landinu á mánudaginn að fara varlega ef vopn og sprengjur frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar fyndust. Jafnvel gamlir og ryðgaðir munir gætu þannig enn þá verið mjög hættulegir. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Varnaðarorðin komu í kjölfar þess að tólf ára drengur mætti á lögreglustöð í borginni Knittelfeld með grip sem hann fann í ruslatunnu og talið er að sé handsprengja frá stríðsárunum sem ætluð var til þess að granda skriðdrekum.

Drengurinn fann sprengjuna í ruslatunnu í hverfinu sínu á sunnudagskvöldið. Sprengjunni var grandað af sprengjusérfræðingum lögreglunnar í kjölfar þess að hann kom með hana á lögreglustöðina. Ekki kemur fram hvers lensk sprengjan var.

Lögreglan beindi því til fólks að koma ekki við slíka muni og halda sig í öruggri fjarlægð. Vopn og virkar sprengjur frá stríðsárunum finnast enn víða í Evrópu. Ekki síst í Þýskalandi og Austurríki og þá gjarnan í tengslum við byggingaframkvæmdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert