Fjöldi innflytjenda í Bretlandi ofmetinn

Bresk yfirvöld ætla að láta endurskoða tölfræði yfir fjölda innflytjenda …
Bresk yfirvöld ætla að láta endurskoða tölfræði yfir fjölda innflytjenda í landinu. Talið er að fjöldi innflytjenda í landinu sé stórlega ofmetinn. AFP

Breska innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir opinberri úttekt á tölugögnum yfir fjölda innflytjenda í landinu eftir að í ljós kom að innflytjendur í landinu kunni að vera færri en talið hefur verið til þessa.

Yfirvöld munu á morgun greina frá því að með nýju skipulagi við landamæraeftirlit sem innleitt var í fyrra hafi komið í ljós að 97% erlendra námsmanna, sem eru stærsti hópur innflytjenda í Bretlandi, fer aftur úr landi að námi loknu. Breska blaðið Telegraph greinir frá.

Áður hafði verið talið að tugþúsundir erlendra námsmanna héldu áfram að búa ólöglega í landinu að námi sínu loknu en í kjölfar þeirrar uppgötvunar, að meginþorri þeirra fari aftur úr landi, hafa efasemdir vaknað um áreiðanleika opinberrar tölfræði yfir fjölda innflytjenda í landinu.

May nær markmiðinu um að fækka innflytjendum

Núverandi tölfræði byggist á tiltölulega umfangslitlum talningum farþega sem fara um flugstöðvar í Bretlandi, jafnvel þótt um sé að ræða einhverja viðkvæmustu tölfræði sem um ræðir í hinu pólitíska samhengi. Fjöldi innflytjenda í landinu og innflytjendamál almennt hafa verið eitt helsta hitamálið í aðdraganda kosninga í Bretlandi fyrr á árinu sem og í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit.

Hið opinbera hefur gefið til kynna að heildartölur yfir fólksflutninga til landsins, sem nú standa í 248.000 á ári, gætu fyrr en varir lækkað um tugi þúsunda þegar tillit hefur verið tekið til nýju landamæratalningarinnar.

Þetta gæti þýtt að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, væri skrefinu nær því að ná markmiði sínu um að draga úr tíðni fólksflutninga til landsins niður fyrir 100 þúsund á ári.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á spjalli við nemendur í Bretlandi.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á spjalli við nemendur í Bretlandi. AFP

Endurskoðaðar tölur gætu einnig komið sér vel fyrir bresku ríkisstjórnina í samningaviðræðunum við Evrópusambandið vegna útgöngu Breta úr ESB en talið er líklegt að ráðherrar muni áfram fallast á frjálsa för evrópskra ríkisborgara til Bretlands. Þá þykir einnig líklegt að nýju tölurnar hafi í för með sér að yfirvöld hætti við áform sín um að fækka veittum dvalarleyfum til erlendra námsmanna að því er Telegraph greinir frá.

Innanríkisráðuneytið mun birta nákvæmar tölur úr nýju kerfi við talningu og eftirlit við komur og brottfarir um landamæri Bretlands. Tölurnar ná yfir allt síðasta ár og fela m.a. í sér tölfræði yfir fjölda þeirra einstaklinga sem voru lengur í landinu en dvalarleyfi þeirra heimilar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert