Ortega segir líf sitt í hættu

Luisa Ortega, fyrrverandi dómsmálaráðherra Venesúela, segist hafa sannanir fyrir spillingu …
Luisa Ortega, fyrrverandi dómsmálaráðherra Venesúela, segist hafa sannanir fyrir spillingu Nicolasar Maduros, forseta landsins. AFP

Luisa Ortega, fyrrverandi dómsmálaráðherra Venesúela, sem flúði nýlega land og hefur fengið hæli í Kólumbíu, segist hafa fjölda sannana um spillingu Nicolasar Maduros forseta landsins. Ortega, sem flúði frá Venesúela til Brasilíu ásamt eiginmanni sínum German Ferrer á föstudag segir líf sitt enn vera í hættu.

Maduro hefur raunar beðið Interpol um að setja Ortega á lista yfir eftirlýsta einstaklinga og hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur henni í heimalandinu. Ortega var einn harðasti gagnrýnandi Maduros í ríkisstjórninni.

„Ég hef margvíslegar sannanir, tryggar sannanir í Odebrecht-málinu um að valdamiklir Venesúelabúar tengist því, þar á meðal forsetinn,“ sagði Ortega, sem var meðal gesta á ráðstefnu í Brasilíu um baráttuna gegn glæpi. Odebrecht er brasilískt verkfræðifyrirtæki sem hefur verið staðið að því að múta háttsettum embættismönnum.

„Gildi laganna hefur dáið undir stjórn Maduros,“ bætti Ortega við. „Ég hef fengið hótanir um að það kunni að vera gert tilræði gegn lífi mínu og ég álít stjórnvöld í Venesúela vera ábyrg ef það gerist.“

Maduro sagði í gær að Ortega og Ferrer hefðu gerst sek um „alvarlega glæpi“ og að þau ætti að handtaka. Segir hann Ferrer vera sekan um kúgun og spillingu.

Nágrannaríki Venesúela, Kólumbía og Brasilía, hafa hins vegar fordæmt það hvernig stjórn Maduros hefur tekið á óeirðunum í landinu, sem síst hafa minnkað eftir umdeildar stjórnlagaþingskosningar fyrr í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert