Segja Trump ljúga um Pakistan

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Pakistanar skjóta nú föstum skotum að Donald Trump, bandaríkjaforseta, í kjölfar ummæla hans um að Pakistanar héldu hlífiskildi yfir skæruliðum. Sakaði Trump Pakistan, bandamann Bandaríkjanna, um að leika tveimur skjöldum með því að þiggja hjálp Bandaríkjanna en veita uppreisnarmönnum skjól sem dræpu Afgana og hermenn NATO þjóðanna.

„Við höfum borgað Pakistönum milljarða ofan á milljarða dala og á sama tíma hýsa þeir sömu hryðjuverkamenn og við erum að kjást við,“ sagði Trump.

Trump hefur nú kynnt nýja aðgerðaáætlun um Afganistan og áform um flutning frekari herafla til landsins. Í áætlunum leikur Indland stærra hlutverk en áður.

Pakistanar líta á Indverja sem mögulega ógn við land sitt vegna þeirra kjarnorkuvopna sem síðarnefnda ríkið hefur yfir að búa. Varnir Pakistana eru litlar og hafa þeir því stutt skæruliða til að styrkja varnir sínar á landamærunum, þar á meðal Talíbana. 

Trump fari yfir strikið með áformunum

Ummæli Trump hafa vakið reiði meðal almennings í Pakistan og hafa sumir íbúar höfuðborgarinnar Islamabad sagt að Trump geri land þeirra að blóraböggli. Pakistanar hafi verið dregnir inn í stríð í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna í Afganistan árið 2001 og Trump klíni óförum bandaríska hersins á Pakistan.

Í ritstjórnargreinum dagblaða í Pakistan hefur Trump verið varaður við því að hrinda áformum sínum um Afganistan í framkvæmd óbreyttum og kallaður lygari.

„Eins og fyrri ríkisstjórnir, treystir ríkisstjórn Trump á óbilandi hernaðarsamstarf hvað sem öðru líður. Hann hundsar hagsmuni Islamabads algjörlega,“ sagði í grein Zahid Hussain í dagblaðinu Dawn.

„Embættismenn í Pakistan staðhæfa að Trump hafi farið yfir strikið með því að innlima Indland í áætlanir sínar varðandi Afganistan,“ skrifaði Hussain.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert