Ranglega dæmdir satanistar fá milljóna bætur

Börnin sökuðu Keller-hjónin um misnotkun og ýmsa sataníska trúarsiði, m.a. …
Börnin sökuðu Keller-hjónin um misnotkun og ýmsa sataníska trúarsiði, m.a. um að sundurlima börn og pynta dýr. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Bandarísk hjón sem voru ranglega dæmd fyrir að misnota börn í daggæslu kynferðislega sem hluta af djöflatrúarreglu hafa nú hlotið milljóna bætur frá ríkinu.

Hjónin, Dan og Fran Keller, ráku saman daggæslu fyrir börn. Dómstóll í Texas dæmdi þau í 21 árs fangelsi árið 1991 fyrir að misnota börnin. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma, börnin sökuðu Keller-hjónin um misnotkun og ýmsa sataníska trúarsiði, m.a. um að sundurlima börn og pynta dýr.

Yfirvöld viðurkenndu síðar að viðtalstæknin sem var notuð þegar talað var við börnin hafi verið röng og til þess fallin að kalla fram falskar minningar. Þá hafi andrúmsloftið verið óttadrifið og fólk tekið að trúa að satanistar hygðust ræna börnum þeirra.

80.000 dollara bætur fyrir hvert ár

Læknirinn, sem fullyrti að hann hefði fundið merki um misnotkun, viðurkenndi árið 2013 að hann hefði gert mistök er hann var að meta uppruna áverka á einu barnanna. Keller-hjónin voru látin laus úr fangelsi síðar það ár, en það var ekki fyrr en í ár sem þau voru hreinsuð af öllum ásökunum.

Þeim hafa nú verið dæmdar 3,4 milljónir dollara í bætur, en lög Texas-ríkis kveða á um að hvort þeirra fyrir sig eigi rétt á 80.000 dollara bótum fyrir hvert ár sem þau dvöldu í fangelsi.

„Þetta þýðir að við þurfum ekki lengur að spara hverja krónu sem við fáum frá félagsþjónustunni,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Fran Keller. Þetta þýðir að við verðum raunverulega frjáls. Við getum farið að lifa aftur – án martraðanna.

Keller-hjónin, sem eru á sjötugsaldri, hafa búið við mikla fátækt frá því að þau voru látin laus úr fangelsi. Hefur þeim reynst ómögulegt að fá vinnu vegna dómsins og hás aldurs.

Yfirvöld í Texas hafa á árabilinu 1991-2016 greitt 93,6 milljónir dollara í bætur til 101 einstaklings sem ranglega voru dæmdir til fangelsisvistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert