Bandaríkin tilbúin að „gereyða“ N-Kóreu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varaði stjórnvöld í Norður-Kóreu við að framfylgja kjarnorkuáætlun sinni í ávarpi sem hann flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Trump sagði einnig að Bandaríkin væru reiðubúin að „gereyða“ Norður-Kóreu ef til þess kæmi að Bandaríkin þyrftu að verja sig eða bandamenn sína. Trump sagðist þó vona að ekki þyrfti að grípa til þess ráðs.

Trump vandaði Kim Jong-Un, leiðtoga Norðu-Kóreu, ekki kveðjurnar í ávarpi sínu og kallaði hann meðal annars „eldflaugamann“. 

Forsetinn ræddi einnig kjarnorkuáætlun Írana í ávarpi sínu og sagði að kjarnorkusamkomulag Bandaríkjanna og fimm annarra ríkja við Íran frá árinu 2015 vera meðal verstu samninga sem Bandaríkin hafi gert við annað ríki. Hann gaf í skyn að til greina komi að slíta samkomulaginu.

Þá sagði Trump að þau ríki sem hunsi reglur alþjóðasamfélagsins, ráði yfir kjarnorkuvopnum og styðji hryðjuverkastarfsemi ógni bæði eigin þegnum og öðrum ríkjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert