Leiddist og reyndi að selja ríkisleyndarmál

Roque M. við réttarhöldin í Düsseldorf.
Roque M. við réttarhöldin í Düsseldorf. AFP

Þjóðverji, sem er bæði fyrrverandi njósnari og klámmyndaleikari, var í dag dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa reynt að selja ríkisleyndarmál á netinu. 

Maðurinn, sem nefndur er Roque M. og er 52 ára, komst í kastljós fjölmiðla þegar hann var handtekinn í nóvember í fyrra. Málið þá snerist um íslamista sem starfaði undir fölsku flaggi hjá þýsku leyniþjónustunni. Hann var látinn laus í júlí eftir að saksóknari féll frá flestum ákæruliðum þar sem engin tengsl fundust á milli mannsins og íslamskra öfgahópa eða hryðjuverkasamsæra.

AFP

Fyrir rétti greindi Roque M. frá því að hann hefði þóst vera íslamskur vígamaður, sem væri að undirbúa hryðjuverkaárás, á spjallrás á netinu. Ástæðan var einföld - honum leiddist.

„Ég hitti aldrei íslamista. Ég myndi aldrei gera nokkuð slíkt. Þetta var bara grín,“ sagði Roque M. við upphaf réttarhaldanna í Düsseldorf.

Roque M. er fyrrverandi bankastarfsmaður og fjögurra barna faðir. Hann segir að hluti af starfi hans hjá leyniþjónustu þýska ríkisins, Bundesamt für Verfassungsschutz (BfV), hafi verið að fylgjast með íslamistum.

Honum hafi alls ekki leiðst starfið en um helgar hafi hann stundum flúið raunveruleikann og sökkt sér ofan í heim íslamista á sama tíma og hann fylgdist með fjölfötluðum syni sínum. 

Roque M. gekk jafnvel svo langt að skipuleggja fundi með grunuðum íslamistum í ræktinni. Hann heldur því hins vegar statt og stöðugt fram að hann hafi aldrei ætlað sér að mæta á þá fundi. En þegar hann bauðst til þess að deila ríkisleyndarmálum um aðgerðir BvV með einhverjum sem hann kynntist á slíkri spjallrás fór gamanið að kárna. Því viðkomandi reyndist vera vinnufélagi hans sem starfaði með leynd. 

Þegar fréttist af málinu greip um sig mikil reiði meðal almennings sem krafðist skýringa á því hvernig farið væri með ríkisleyndarmál. Ekki dró úr umfjöllun um málið þegar upplýst var að maðurinn hefði á árum áður starfað sem leikari í klámmyndum sem áttu að höfða til homma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert