Barið í búsáhöld í Barcelona

Marisa á von á því að mótmælin munu standa yfir …
Marisa á von á því að mótmælin munu standa yfir í alla nótt. Þúsundir eru saman komnar til að mótmæla á götum Barcelona. AFP

„Það hafa verið mótmæli í allan dag og það er fullt af fólki niðri í bæ og ég held að það verði alla nóttina,“ segir Marisa Arason, sem búsett er í Barcelona. Í borg­inni hafa spænsk stjórn­völd hand­tekið fjór­tán katalónska emb­ætt­is­menn og ráðist inn í þau ráðuneyti sjálfs­stjórn­ar­héraðsins sem koma að skipu­lagn­ingu fyr­ir­hugaðrar þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðskilnað Katalóníu frá Spáni.

Marisa er eiginkona Jóns Arasonar sem mbl.is ræddi við fyrr í dag en hún er frá Katalóníu og var á leið sinni í miðbæinn til þess að taka þátt í mótmælunum þegar mbl.is náði af henni tali. Marisa vill fá að kjósa um sjálfstæði Katalóníu en sjálf er hún hlynnt sjálfstæði Katalóníu frá Spáni.

Formlega hófust mótmælin klukkan tíu í kvöld að staðartíma að sögn Marisu og á slaginu tíu byrjuðu mótmælendur að flauta bílflautum sínum og berja í búsáhöld. Hún segist ekki hafa orðið vör við miklar óeirðir, mótmælin hafi farið nokkuð friðsamlega fram en krafa Katalóna sé skýr: Þeir vilji fá að kjósa í þjóðaratkvæði um sjálfstæða Katalóníu.

Gríðarlegur fjöldi fólks er saman kominn til að mótmæla í …
Gríðarlegur fjöldi fólks er saman kominn til að mótmæla í miðborg Barcelona. AFP

„Það er rosalega mikil stemning hér, svolítið eins og það sé partý en það er ekki þannig. Þetta er hræðilegt, ótrúlegt hvernig ástandið er,“ segir Marisa sem bjó lengi á Íslandi áður en þau hjónin fluttu aftur til Barcelona. „Lögreglan getur ekki gert mikið í raun og veru því að það eru þúsundir manna sem eru í miðbænum. Þetta er enginn smá hópur.“

Í beinni útsendingu í spænska sjónvarpinu í kvöld hvatti Mariano Rajoy, forsætisráðherra landsins, aðskilnaðarsinna í Katalóníu til að hætta við áform um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu sem fyrirhuguð er 1. október.

Spænsk yfirvöld hafa gengið hart fram til að reyna að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna, sem þau telja vera ólöglega, meðal annars með því að leggja hald á kjörgögn að því er BBC greinir frá.

Á Twitter hafa margir deilt myndum og myndböndum frá mótmælunum en hér að neðan má meðal annars heyra lætin þegar íbúar berja saman búsahöldum af svölum heimila sinna og á götum úti.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert