„Ég vona að hún sé látin“

Frá Mexíkóborg.
Frá Mexíkóborg. AFP

„Ég vona að hún sé látin þannig að hún sé ekki föst undir brakinu á lífi,“ segir Monica Saavdera, en móðir hennar, sem er 87 ára gömul, er meðal þeirra sem ekki hafa fundist eftir að hjúkrunarheimili hrundi til grunna. Vitað er að um 250 eru látnir eftir að jarðskjálfti sem mældist 7,1 stig reið yfir Mexíkó í gær.

AFP

Skömmu áður en jarðskjálftinn reið yfir höfðu íbúar Mexíkó minnst fórnarlamba jarðskjálftans sem reið yfir árið 1985 þar sem um 10 þúsund manns létust. Jarðskjálftinn 19. september 1985 var átta stig og á þessum degi ár hvert er haldinn almannavarnaæfing í landinu.  Aðeins tveimur tímum eftir æfinguna í ár reið skjálftinn yfir á svipuðum slóðum. 

AFP

Meðal þeirra sem létust er 21 grunnskólabarn í Mexíkóborg en skólinn hrundi í skjálftanum í gær. Enn er leitað í rústum skólans því tugir nemenda eru enn undir rústunum auk kennara.

Eitt erfiðasta verkefnið sem björgunarsveitir standa frammi fyrir er að leita í rústum Enrique Rebsamen skólans í Coapa-hverfi í Mexíkóborg. Skólinn sem var á þremur hæðum féll saman og eru nemendur og kennarar fastir undir rústunum. Talið er að 30-40 séu enn undir brakinu en tekist hefur að bjarga 11 börnum á lífi úr rústunum. Fyrir stuttu fannst kennari og einn nemandi á lífi í rústunum og er verið að reyna að ná þeim upp. 

Aðstæður eru skelfilegar og í nótt hrundi hluti húsabraksins þar sem björgunarfólk er að störfum. Það lét það ekki stöðva sig og hélt leitinni áfram því hver mínúta skiptir máli.

Fjölmiðlar í Mexíkó greina frá því að hermanni hafi til að mynda tekist að gefa barni súrefni í gegnum rör en ekki hefur tekist að bjarga barninu úr rústunum.

Forseti Mexíkó,  Peña Nieto, er einn þeirra sem fóru á vettvang. Hann varar við því að tala látinna eigi eftir að hækka. 

AFP

Flestir hafa látist í Mexíkóborg en eins hefur verið tilkynnt um dauðsföll í Puebla, Morelos, Guerrero og Mexíkó-ríki.

 Alls búa um 20 milljónir í Mexíkóborg og segja borgaryfirvöld að sífellt berist fleiri fregnir af fólki sem ekki hefur fundist. Rafmagn fór af hluta borgarinnar og eins hefur fólk verið beðið um að reykja ekki útivið þar sem óttast er um að gasleiðslur hafi laskast.

AFP

Um 100 létust þegar jarðskjálfti sem mældist 8,2 stig, reið yfir Mexíkó fyrir 12 dögum. Upptök skjálftans voru í Kyrrahafi, um 100 km frá strandbænum Tonala í fylkinu Chiapas.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert