Lögregla skaut heyrnarlausan mann

Magdiel Sanchez.
Magdiel Sanchez.

Lögreglan í Oklahoma City skaut til bana heyrnarlausan mann sem hélt á járnröri. Lögreglan kallaði á manninn að sleppa vopni sínu, en sökum heyrnarleysisins brást hann ekki við skipuninni, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir talsmanni lögreglunnar.

Við rannsókn á máli þar sem ekið hafði verið á einstakling og ökumaður stakk síðan af komu lögreglumenn að húsi þar sem hinn 35 ára Magdiel Sanchez var á veröndinni. Sanchez hélt þar á 60 sm löngu járnröri sem var vafið inn í klæði og með leðurlykkju á endanum.

Vitni að því þegar lögreglumennirnir skipuðu Sanchez að leggja rörið frá sér hrópuðu á þá að Sanchez væri heyrnarlaus.

Bo Mathews, talsmaður lögreglunnar, segir Sanchez hafa gengið í átt að lögreglumönnunum með járnrörið í hendi. Annar þeirra var með byssu í hendi, en hinn var með rafbyssu (e. taser). Þeir skutu báðir á hann.

„Í svona eldfimum aðstæðum þegar menn eru með vopn á lofti geta þeir fengið svonefnda rörsýni og eru ónæmir gagnvart öllu öðru en einstaklingnum sem þeir telja ógna sér,“ sagði Mathews við fréttamenn. „Það getur vel verið að þeir hafi ekki heyrt fólkið í kringum þá hrópa.“

Sanchez var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Christopher Barnes, lögreglumaðurinn sem skaut Sanchez með byssu, hefur verið leystur frá störfum á meðan málið í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert