„Röng ræða á röngum tíma“

Donald Trump flutti sína fyrstu ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna …
Donald Trump flutti sína fyrstu ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. AFP

Jómfrúarræða Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur verið fordæmd af nokkrum aðildarþjóðum sem komu þar við sögu.  

Trump sagði meðal annars að Íran tilheyrði litlum hópi stjórnlausra ríkja og að Bandaríkin myndu gereyða Norður-Kóreu ef til þess kæmi að þau þyrftu að verja sig eða bandamenn sína.

Utanríkisráðherra Írans, Javad Zarif, segir að fávís hatursáróður Trump eigi frekar heima á tímum miðalda en á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á 21. öldinni.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa enn ekki brugðist við ummælum Trump um hótun hans að gereyða ríkinu.

Fréttastofa Reuters greinir frá því að kliður hafi farið um salinn þegar Trump flutti ræðu sína og að nokkrir áheyrendur í sal hafi gripið um andlit sitt.

„Þetta var röng ræða, á röngum tíma, fyrir ranga áheyrendur,“ segir utanríkisráðherra Svía, Margot Wallstrom, í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert