Segir sig úr frönsku Þjóðfylkingunni

Florian Philippot og Marine Le Pen.
Florian Philippot og Marine Le Pen. AFP

Varaformaður frönsku Þjóðfylkingarinnar, Front National, Florian Philippot, hefur sagt sig úr flokknum en hann var fremstur í flokki þeirra sem reyndu að mýja ímynd flokksins meðal kjósenda.

Hann greindi frá því í viðtali við France 2 sjónvarpsstöðina að hann hefði sagt sig úr flokknum en Marine Le Pen, formaður Front National, hafði svipt hann helstu ábyrgðarhlutverkum sínum innan flokksins.

Philippot segist ekki hafa nokkurn áhuga á að vera hafður að atlægi. „Mér hefur aldrei þótt eftirsóknarvert að hafa ekkert að gera og því hef ég ákveðið að yfirgefa Front National.“

Philippot segist telja að flokkurinn ætli að endurskipuleggja stöðu sína eftir vonbrigðin varðandi forsetakosningarnar og þingkosningarnar. Hann óttast að harðlínustefna flokksins verði endurnýjuð.

Undanfarnar vikur hafi hann séð neikvæða hluti gerast innan flokksins og allt frá forsetakosningunum í vor hefur hann ítrekað lent í togstreitu við leiðtoga flokksins.

Margir andstæðingar hans innan Front National saka hann um að hafa krafist þess að leggja evruna niður og það hafi kostað Le Pen marga stuðningsmenn. Eins hefur Philippot verið sakaður um að beina athygli Front Natinal frá innflytjendum í hagræna þjóðernisstefnu.

Florian Philippot.
Florian Philippot. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert