Vill sporna við starfsemi öfgahópa

Stefan Löfven.
Stefan Löfven. AFP

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, gagnrýnir göngu nýnasista um Gautaborg síðustu helgi og að tímabært sé að íhuga hvernig hægt verði að sporna gegn öfgahópum í landinu.

Löfven segir framkomu öfgahópa komna yfir þolmörk og þeir hafi ekki einu sinni fyrir því að leita eftir heimild lögreglunnar um að standa fyrir göngum þar sem öðrum þjóðfélagshópum er mótmælt. Um 50 rasistar tóku þátt í göngunni og báru göngumenn fána norræna nasista, Nordiska motståndsrörelsen, NMR.

Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að grípa ekki inn þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi fyrir mótmælin. Leiðtogi NMR viðurkenndi að með göngunni hafi þau viljað kanna getu lögreglunnar til að grípa inn.

Löfven telur tímabært að endurskoða margt varðandi tjáningarfrelsið og frelsi til að mótmæla. Öfgahreyfingar sem þessar líti ekki á tjáningarfrelsið sem hluta af þjóðfélaginu sem þær sækjast eftir. Heldur er því öfugt farið.

Forsætisráðherrann ætlar að óska eftir því við dómsmálaráðherrann, Morgan Johansson, að taka málefnið til skoðunar og hefur boðið stjórnarandstöðunni að taka þátt í umræðu um öfgahópa í landinu.

Á sama tíma og við sjáum stigmögnun slíkra öfgahópa og um leið er farið að líta á rasistaflokka sem eðlilegan hlut þá verður að gera eitthvað, segir Löfven.

Einum stjórnarandstöðuflokki verður ekki boðið til viðræðna um öfgahópa en það eru Svíþjóðardemókratar. Johansson segir að litið sé á þann flokk sem rasistaflokk með upptök í nasisma. Þeir séu ekki með sömu grunngildi og aðrir stjórnmálaflokkar á þingi og því verði þeim ekki boðin þátttaka. Leiðtogi þjóðernisflokksins SD, Jimmie Åkesson, segir í samtali við Expressen að litið sé á NMR sem glæpasamtök og að þau séu álitin hryðjuverkasamtök. Rannsaka þurfi slíkar ásakanir.

NMR hefur skipulagt göngu í nágrenni bænahúss gyðinga í Gautaborg á hátíðardegi gyðinga, Yom Kippur, 30. september. Samtök gyðinga í Svíþjóð hafa óskað eftir því við lögreglu að koma í veg fyrir gönguna.

Expressen

SvD

Ný-nasistar Nordiska motståndsrörelsen NMR á ferð í Falun á 1. …
Ný-nasistar Nordiska motståndsrörelsen NMR á ferð í Falun á 1. maí. Af vef EXPO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert