Fjölga lögregluþjónum í Katalóníu

Spænsk yfirvöld hyggjast senda fleiri lögregluþjóna til Katalóníu til að …
Spænsk yfirvöld hyggjast senda fleiri lögregluþjóna til Katalóníu til að halda uppi röð og reglu og koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæða Katalóníu. AFP

Spænsk yfirvöld hyggjast senda fleiri lögreglumenn til Katalóníu til að koma í veg fyrir frekari tilraunir til að halda þar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu. Frá þessu greinir innanríkisráðuneyti Spánar í dag en yfirvöld í Madríd segja fyrirhugaða atkvæðagreiðslu vera ólöglega.

Mótmæli hafa meðal annars geisað í Barcelona undanfarna daga vegna viðbragða harkalegra viðbragða spænskra yfirvalda við fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lögreglumennirnir sem bætast í hópinn munu hafa umsjón og eftirlit með opnum svæðum, eiga að halda röð og reglu og „bregðast við ef ólöglegar tilraunir til þjóðaratkvæðagreiðslu halda áfram,“ að því er segir í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneytinu. Reuters greinir frá.

Svæðisstjórn Katalóníu segir aðgerðir spænska ríkisins ganga allt of langt og segja þær gefa ranga mynd af þeirri stöðu sem er uppi. „Það eina sem þú þarft er að hafa augu í höfðinu til að sjá að það er ekkert ofbeldi,“ segir Jordi Turull, talsmaður katalónsku svæðisstjórnarinnar.

Vilja halda atkvæðagreiðslunni til streitu

Yfirvöld í Katalóníu eru staðráðin í að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna 1. október, þrátt fyrir að yfirvöld í Madríd hafi lagt bann við þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar leiðir í ljós að meirihluti sé hlynntur sjálfstæði Katalóníu segist svæðisstjórnin jafnframt munu lýsa yfir sjálfstæði aðeins tveimur sólarhringum eftir að úrslit eru kunn.

Stúdentar marsera götur Barcelona og mótmæla.
Stúdentar marsera götur Barcelona og mótmæla. AFP

Ríkislögreglan hefur þegar ráðist í umfangsmiklar aðgerðir í Katalóníu og hafa meðal annars gert húsleitir á skrifstofum svæðisstjórnarinnar, hjá fjölmiðlum, prentfyrirtækjum og póstþjónustufyrirtækjum þar sem leitað hefur verið að kjörgögnum og kosningaáróðri og það gert upptækt.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum eru á milli þrjú og fjögur þúsund lögregluþjónar þegar mættir eða eru á leiðinni. Innanríkisráðuneytið hefur ekki gefið upp nokkrar upplýsingar um fjölda lögregluþjóna sem eiga að bætast í hópinn en þegar eru um fimm þúsund lögreglumenn á vegum spænskra yfirvalda á svæðinu. Að sögn ráðuneytisins munu lögregluþjónarnir vera katalónsku lögreglunni, Mossos d‘Esquadra, innan handar en hún fari þó áfram með yfirumsjón löggæslu á svæðinu.

Mótmælendur láta í sér heyra fyrir utan þinghús katalónsku svæðisstjórnarinnar.
Mótmælendur láta í sér heyra fyrir utan þinghús katalónsku svæðisstjórnarinnar. AFP

Fregnir herma að til þessa hafi svæðis- og ríkislögregla unnið vel saman en spænsk yfirvöld telja svæðislögregluna ekki hafa burði til að koma í veg fyrir þjóaratkvæðagreiðsluna og halda uppi röð og reglu.

Innanríkisráðherra svæðisstjórnar Katalóníu segir áform yfirvalda í Madríd þó vera enn eitt skref ríkisstjórnarinnar í átt að því að taka yfir löggæslu á svæðinu.

Svæðisstjórn Katalóníu sakaði spænsk yfirvöld fyrr í vikunni fyrir að reyna að hrifsa völdin úr höndum svæðisstjórnarinnar eftir að ríkislögreglan réðist til atlögu og handtók nokkra embættismenn svæðisstjórnarinnar auk þess sem spænska fjármálaráðuneytið tók yfir stjórn fjármálaráðuneytis svæðisstjórnarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert