Handtekinn vegna árása á Spáni

Frá Barceolona eftir hryðjuverkin.
Frá Barceolona eftir hryðjuverkin. AFP

Spænska lögreglan hefur handtekið marokkóskan mann sem er grunaður um að starfa með hópi sem talinn er hafa staðið á bak við árás sem kostaði 16 manns lífið í Barcelona og í strandbæ í síðasta mánuði.

Maðurinn, sem er 24 ára gamall, var handtekinn í bænum Castellon og samkvæmt tilkynningu innanríkisráðuneytisins var hann í nánum tengslum við hluta hópsins, einkum ímaminn Abdelbaki Es Satty. 

Es Satti var rúmlega fertugur og fæddist í þorpi nálægt hafnarborginni Tangier í Marokkó. Hann flutti búferlum til Spánar og starfaði sem ímam í mosku í bænum Ripoll í norðanverðri Katalóníu. Að sögn spænskra fjölmiðla er talið að hann hafi tengst hryðjuverkanetinu al-Qaeda fyrir ellefu árum og fengið unga múslima til að berjast í Írak. Komið hafa fram vísbendingar um að hann hafi seinna gengið til liðs við Ríki íslams, samtök íslamista sem náðu svæðum í Írak og Sýrlandi á sitt vald. Hann er sagður hafa fengið unga múslima til liðs við samtökin og beitt til þess sömu aðferðum og al-Qaeda beitti í mörg ár.

New York Times hafði eftir fólki sem kynntist ímaminum að ekkert í fari hans hefði bent til þess að hann væri íslamisti og hefði lagt á ráðin um hryðjuverk. Hann hefði virst ósköp venjulegur maður í klæðaburði, verið með stutt skegg og alltaf hæverskur og háttvís í framkomu. „Hann var mjög viðkunnanlegur, heillandi, virkilega kurteis, einum of sléttur og felldur,“ hefur dagblaðið eftir þrítugri konu sem ólst upp með elstu félögunum í hryðjuverkahópnum.

Hermt er að ímaminn hafi brýnt fyrir ungu mönnunum í hópnum að hegða sér með sama hætti og hann til að komast hjá því að grunsemdir vöknuðu um að þeir styddu öfgasamtökin og væru að undirbúa hryðjuverk. Flestir þeirra virtust vera ósköp „eðlilegir“ ungir menn, höfðu atvinnu, virtust hafa samlagast samfélaginu og töluðu katalónsku og spænsku, að sögn blaðsins í síðasta mánuði.

Ímaminn beið bana í sprengingu sem varð fyrir mistök í húsi sem hópurinn notaði til sprengjugerðar í bænum Alcanar 16. ágúst. Einn hryðjuverkamannanna sem hafa verið handteknir hefur játað að hópurinn hafi undirbúið sprengjuárásir á þekktar byggingar í Barcelona. Lögreglan hefur fundið mikið magn sprengiefna og búnað til sprengjugerðar.

Ungi maðurinn sem nú var handtekinn er talinn hafa veitt aðstoð við að útvega efni til sprengjugerðar og ökutæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert