Mæðgur myrtar í Istanbúl

Móðirin, Aroubeh Barakat, var þekktur stjórnarandstæðingur og aðgerðarsinni í Sýrlandi …
Móðirin, Aroubeh Barakat, var þekktur stjórnarandstæðingur og aðgerðarsinni í Sýrlandi en dóttir hennar, Halla Barakat, var blaðamaður. Skjáskot af Twitter

Sýrlenskar mæðgur, sem voru áberandi í baráttunni gegn stjórnvöldum í heimalandinu, fundust látnar í íbúð sinni í Istanbúl í Tyrklandi.

Uppfært 23. september - samkvæmt fyrstu fréttum í gær kom fram að þær höfðu verið skornar á háls, samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum. Nú virðist sem þær hafi verið stungnar til bana. 

Móðirin, Aroubeh Barakat, var þekktur stjórnarandstæðingur og aðgerðasinni í Sýrlandi en dóttir hennar, Halla Barakat, var blaðamaður. Það voru vinir þeirra sem höfðu samband við lögreglu eftir að ekki náðist í þær í síma. 

Þegar lögreglan kom á vettvang í íbúð þeirra í Uskudar-hverfinu, sem er Asíumegin í Istanbúl, fann hún konurnar látnar.

Tæplega þrjár milljónir Sýrlendinga hafa flúið til Tyrklands frá því uppreisnin gegn einræðisstjórn Bashars al-Assads hófst í mars 2011. 

Systir Aroubeh Barakat, Shaza, staðfestir andlát þeirra á Facebook og segir þær hafa verið ráðnar af dögum. Þær hafi verið stungnar til bana.  

Hún segir að systir hennar hafi byrjað að mótmæla ofríki Assd-fjölskyldunnar á níunda áratug síðustu aldar þegar faðir núverandi forseta var við völd, Hafez. 

Í frétt Yeni Safak kemur fram að Aroubeh Barakat hafi rannsakað ásakanir um pyntingar í fangelsum ríkisins. Hún hafi búið í Bretlandi og síðar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum áður en hún flutti til Istanbúl.

Sýrlenski aðgerðarsinninn Rami Jarrah skrifaði á Facebook að fjölskyldan teldi að morðin tengdust aðgerðum Aroubeh gegn stjórnvöldum í Sýrlandi.

Halla Barakat, 22 ára, starfaði fyrir fréttavefinn Orient News og hafði einnig unnið fyrir tyrkneska ríkissjónvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert