Orrustuþotum flogið að Norður-Kóreu

B-1B Lancer, sprengjuflugvél bandaríska hersins.
B-1B Lancer, sprengjuflugvél bandaríska hersins. AFP

Bandarískri sprengjuflugvél í fylgd orrustuþotna hersins var flogið nærri austurströnd Norður-Kóreu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, var tilgangurinn að sýna fram á hernaðarlega yfirburði Bandaríkjahers umfram vopnabúnað yfirvalda í Pyongyang, höfðuborgar Norður-Kóreu.

Þetta er í fyrsta sinn á þessari öld sem herþotum bandaríska hersins er flogið svo norðarlega með strönd Norður-Kóreu að sögn talskonu bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

„Þessi aðgerð sýnir fram á skýr og einbeitt skilaboð Bandaríkjanna um að forsetinn býr yfir fjölbreyttum hernaðarlegum möguleikum til að sigrast á hvaða ógn sem er,“ segir Dana White, talskona Pentagon. „Við erum undir það búin að beita fullum hernaðarlegum krafti til að verja Bandaríkin og bandamenn þeirra.“

Í kjölfar síðustu kjarnorkuvopnatilraunar yfirvalda í Norður-Kóreu hefur spennan á Kóreuskaganum aukist verulega. Ekki síður spennan milli yfirvalda í Pyongyang og í Bandaríkjunum aukist til muna en Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafa að undanförnum vegið hart hvor að öðrum.

Að sögn bandarískra yfirvalda var tilgangur flugsins við strönd Norður-Kóreu í dag fyrst og fremst sá að sýna fram á hernaðarlega yfirburði sína og láta í ljós að Bandaríkin muni svara öllum ógnum Norður-Kóreumanna fullum hálsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert