Hundruð látist í fagnaðarlátum

Kalashnikov-riffill, betur þekktur undir nafninu AK-47.
Kalashnikov-riffill, betur þekktur undir nafninu AK-47. Wikipedia

Á sama tíma og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út um gjörvallt Pakistan, vegna stórkostlegs sigurs krikketlandsliðsins gegn Indlandi í sumar, lá hinn fimm ára Noeen látinn í norðvesturhluta landsins. Dánarorsökin: Fagnaðarkúlnahríð.

Í Pakistan hefur löngum tíðkast að fagna brúðkaupum, trúarathöfnum og íþróttasigrum með því að skjóta byssukúlum út í loft. Skotvopn eru auðfáanleg á svörtum mörkuðum við landamærin að Afganistan og byssuglæpir tíðir í stærstu borgum landsins.

Eftir að Pakistan gjörsigraði Indland á Champions Trophy í júní sl. létust að minnsta kosti tveir í fagnaðarlátunum og hundruð særðust. Krikket-aðdáendur létu sér nefnilega ekki nægja að gleðjast í góðra vina hóp, heldur hleyptu óspart af skotvopnum sínum í sæluvímunni.

Í Nowshera, í hinu afskekkta Khyber Pakhtunkhwa-héraði, var Laeeq Shah á gangi með fimm ára syni sínum þegar hátíðarhöld brutust út í almenningsgarði. Drengurinn hrundi í jörðina þegar slysaskot hæfði höfuð hans.

Farið var með barnið á sjúkrahús í Peshawar þar sem Noeen barðist fyrir lífi sínu í 60 klukkustundir áður en hann lést af sárum sínum.

„Einn getur rústað heimili annars óafvitandi,“ segir Shah í samtali við AFP.

Þráhyggja manna gagnvart skotvopnum er sérstaklega áberandi í ættbálkasamfélaginu í norðvesturhluta Pakistan. Þar eru þau ódýrari en snjallsímar og fæstir karlmenn ferðast langt óvopnaðir.

Segja má að í raun komi skotvopnin í stað skartgripa.

Laeeq Shah, faðir Noeen, hefur farið moska á milli til …
Laeeq Shah, faðir Noeen, hefur farið moska á milli til að hvetja trúarleiðtoga til að tala fyrir því að hin lífshættulega hefð verði lögð niður. Hér er hann ásamt dætrum sínum, Warisha og Zofisha. AFP

Byssumenningin á sér djúpar rætur í landinu en magnaðist til muna eftir að Sovétmenn réðust inn í Afganistan; þegar Bandaríkin og Sádi-Arabía hófu að koma vopnum til bardagamannanna sem áttu í skærum við kommúnistana á landamærunum.

Vopnaflóðið greiddi fyrir því sem síðar hefur verið kallað „Kalashnikov-menning“, þar sem sjálfvirk vopn eru auðkeypt á byssumörkuðum víða um land. Þá hefur hið auðvelda aðgengi eflaust átt sinn þátt í að kynda undir átök innanlands löngu eftir að Sovétmenn heyrðu sögunni til.

Sjálfvirku vopnin leystu fljótt gamaldags riffla af hólmi við hátíðlegar athafnir en óhætt er að segja að sú hefð að skjóta kúlum út í loft til að fagna hinu og þessu hefur tekið sinn toll.

Allt eins víst að kúlan hæfi einhvern

Engin opinber tölfræði er til yfir þann fjölda sem hefur látist vegna fagnaðarkúlnahríðar en yfirvöld segja hann líklega nema hundruðum síðustu ár.

Eftir dauða sonar síns ákvað Shah að grípa til aðgerða og ferðaðist á milli moska og freistaði þess að fá trúarleiðtoga til að sannfæra söfnuði sína um að leggja hefðina á hilluna.

„Í gamla daga fagnaði fólk með því að skjóta upp í loft á opnum ökrum,“ útskýrir Shah. Í dag segir hann viðbúið að þegar hleypt sé af byssu hæfi kúlan einhvern.

Staðaryfirvöld hafa einnig látið til sín taka og lögregla í Nowshera og víðar meðal annars dreift bæklingum og veggspjöldum auk þess að virkja samfélagið í baráttunni.

„Við getum ekki náð tökum á þessari bölvun án stuðnings almennings,“ segir Sajjad Khan, yfirmaður hjá lögreglunni, í samtali við AFP.

Tahir Khan, lögreglustjórinn í Peshawar, hefur hvatt þá sem venjulega hleypa af skotvopnum sínum í fagnaðarskyni til að verja fjármununum sem þeir hefðu ella eytt í skotfæri til góðgerðarmála.

„Ein kúla kostar 60 til 70 rúpíur; við getum notað þessa peninga í þágu fátækra,“ segir hann. Upphæðin jafngildir 70 íslenskum krónum.

Byssukúlur fyrir AK-47 frá Pakistan, Rússlandi og Kína.
Byssukúlur fyrir AK-47 frá Pakistan, Rússlandi og Kína. Wikipedia/Todd Huffman

Í Pakistan þurfa menn að fá leyfi áður en þeir eignast skotvopn og þá þarf sérstakt leyfi til að bera á sér byssur með mikla hlaupvídd og sjálfvirka riffla. Nýkjörinn forsætisráðherra, Shahid Abbasi, hefur heitið því að taka á útbreiðslu sjálfvirkra skotvopna.

Eins og sakir standa eru einstaklingar sem staðnir eru að því að hleypa af út í loftið sektaðir um 1.000 rúpíur, eða 1.600 íslenskar krónur. Þannig eru að minnsta kosti reglurnar en þeim er sjaldnast framfylgt.

Skaðinn skeður

Í viðleitni sinni til að koma böndum á byssumenningu landsins hafa staðaryfirvöld víða um land einnig bannað sölu á leikfangabyssum. Heimsókn á einn stærsta markað Peshawar leiðir hins vegar í ljós að leikfangaskotvopn eru auðfáanleg.

„Stjórnvöld hafa bannað sölu á leikfangabyssum, þeir segja þær spilla huga krakkanna; það sé betra að láta þau fá penna eða önnur leikföng,“ segir verslunareigandinn Sharif Khan. „En krakkanir eiga enga aðra kosti; það er ekkert annað að leika sér með.“

Á heimili Shah-fjölskyldunnar er skaðinn skeður.

Í kjölfar dauða sonar síns gáfu foreldrar Noeen allar eigur hans í burtu af heimilinu. Að hafa þær þar var einfaldlega of sársaukafullt.

Shah segir eiginkonu sína enn þjást af áfallastreituröskun en dóttir þeirra hjóna skilur ekki hvers vegna menn þurfa að fagna með byssum.

„Af hverju fagna menn með því að skjóta út í loftið?“ spyr Warisha. „Ef þú ert glaður þakkaðu þá bara Allah.“

Shehzada Khurram og faðir hans Imtiaz Javed í sjónvarpsviðtali um …
Shehzada Khurram og faðir hans Imtiaz Javed í sjónvarpsviðtali um móður Khurram, Shabana Shaheen, sem lést árið 2015 þegar stuðningsmenn stjórnmálamanns hófu að hleypa af skotvopnum sínum til að fagna kosningasigri frambjóðandans. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert