Hvetur aðdáendur til að sniðganga leiki

Trump telur að með því að sniðganga leiki geti aðdáendur …
Trump telur að með því að sniðganga leiki geti aðdáendur þrýst á leikmenn að hætta að mótmæla. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur aðdáendur ameríska fótboltans til að sniðganga leiki í NFL-deildinni til að þrýsta á eigendur liðanna að reka eða víkja liðsmönnum úr liðum sem sýna bandaríska fánanum óvirðingu. AFP-fréttastofan greinir frá.

Forsagan er sú að á fjöldafundi í Alabama á föstudag lét forsetinn þessi orð falla: „Mynduð þið ekki vilja sjá ein­hvern af þess­um NFL-leik­mönn­um, sem van­v­irða fán­ann, rek­inn? Ef eig­end­ur liðanna myndu bara segja: „Burt með þenn­an tík­ar­son af vell­in­um strax, hann er rek­inn.““

Vísaði Trump þar til mót­mæla sem NFL-leikmaður­inn Col­in Kaepernick hóf á síðasta ári til að vekja at­hygli á kynþátta­for­dóm­um. Kaepernick neitaði að standa á fæt­ur þegar þjóðsöng­ur­inn var spilaður. Síðan þá hafa fleiri farið að for­dæmi hans og annað hvort neitað að standa á fæt­ur eða steytt hnef­ann á meðan þjóðsöng­ur­inn er spilaður.

Nokkrir leikmenn í NFL-deildinni hafa svarað Trump fullum hálsi, sem og leikmenn NBA-deildarinnar í körfubolta. Stephen Curry, liðsmaður Golden State Warriors, neitaði til að mynda að mæta í boð í Hvíta húsinu vegna málsins, og dró Trump boð til annarra liðsmanna til baka í kjölfarið.

„Ef aðdáendur NFL-deildarinnar neita að mæta á leiki þangað til leikmenn hætta að vanvirða fánanna okkar og landið, þá munum við fljótt sjá breytingar á þessu. Rekið eða víkið leikmönnunum úr liðunum!“ skrifaði forsetinn í nýjustu færslu sinni á Twitter um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert