Níræði njósnarinn frá Norður-Kóreu

Norðurkóreski njósnarinn fyrrverandi, Seo Ok-Ryol, á heimili sínu í Gwangju …
Norðurkóreski njósnarinn fyrrverandi, Seo Ok-Ryol, á heimili sínu í Gwangju í Suður-Kóreu. AFP

Seo Ok-Ryol var tvívegis dæmdur til dauða fyrir njósnir og þurfti að dúsa í fangaklefa í þrjá áratugi, lengst af í einangrun. Núna er hann orðinn níræður og þráir það heitast af öllu að komast heim til sín áður en hann deyr, til Norður-Kóreu.

Seo fæddist þar sem núna er Suður-Kórea og þar á hann enn skyldmenni. Hann gekk í herinn og njósnaði fyrir nágrannana í norðri en þar hafði hann yfirgefið eiginkonu og tvö börn. Seo er táknmynd þess aðskilnaðar sem hefur ríkt svo lengi á Kóreuskaganum á milli norðurs og suðurs og einnig sýnir saga hans hvernig öfl sögunnar og stjórnmála hafa farið með íbúa svæðisins.

Seo Ok-Ryol á gangi fyrir utan heimili sitt.
Seo Ok-Ryol á gangi fyrir utan heimili sitt. AFP

AFP-fréttastofan ræddi við Seo, sem er hokinn og horaður, gengur um með staf og er ákveðinn í skapi. Hugur hans er engu að síður afar skýr.

„Ég hef ekki gert neitt rangt af mér en ég elskaði mitt föðurland,” sagði hann og bætti við að það samanstæði af bæði norðri og suðri.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu sendu árið 2000 aftur til sín heima um 60 fyrrverandi fanga sem höfðu dvalið til langs tíma í fangelsi. Þetta var gert eftir sameiginlega ráðstefnu Norður- og Suður-Kóreu. Flestir þeirra voru hermenn, skæruliðar og njósnarar.

Seo var ekki gjaldgengur vegna þess að hann hafði undirritað skjal þar sem hann lýsti yfir hollustu sinni við suðrið í von um að losna fyrr úr fangelsi og fékk hann í framhaldi suðurkóreskan ríkisborgararétt.

Aðgerðasinnar hafa undanfarið barist fyrir því að hann og sautján aðrir aldraðir fyrrverandi fangar (sá elsti er 94 ára) sem enn eru hliðhollir norðurkóreskum stjórnvöldum komist aftur til síns heima.

AFP

Sjálfsmorðspilla

Seo fæddist á eyju í suðurhluta Kóreu. Á námsárum sínum í virtum kóreskum háskóla gerðist hann kommúnisti og gekk til liðs við hersveitir norðursins á meðan á Kóreustríðinu stóð. Þegar hersveitir Sameinuðu þjóðanna undir forystu Bandaríkjamanna nálguðust óðfluga urðu Seo og félagar að hörfa.

Hann gekk til liðs við Verkamannaflokkinn í norðri og starfaði sem kennari í höfuðborginni Pyongyang þegar hann var sendur í þjálfun sem njósnari árið 1961. „Ég varð að fara og gat ekki einu sinni kvatt eiginkonu mina,” sagði hann.

Seo var sendur í leiðangur til suðurs til að reyna að fá til liðs við norðrið háttsettan starfsmann ríkisstjórnarinnar en bróðir hans hafði áður stungið af frá Norður-Kóreu. Seo synti yfir ána Yeomhwa og komst þannig yfir landamærin þar sem hann hitti foreldra mannsins og systkini.

Þegar Seo reyndi að láta embættismanninn fá bréf frá bróður hans fékk hann kuldalegar móttökur.  „Hvað bróðir minn varðar þá er hann sama og dauður fyrir mér. Ég sagði stjórnvöldum að hann hefði dáið í stríðinu,“ sagði maðurinn og neitaði að taka við bréfinu og neitaði jafnframt að ganga til liðs við norðrið. 

Maðurinn sagði ekki til Seo jafnvel þótt að samskipti við Norður-Kóreumenn sem ekki væru fyrirfram leyfð væru bönnuð samkvæmt lögum, líkt og nú, og að hinir brotlegu gætu átt yfir höfði sér þungan fangelsisdóm.

Leiðangur Seo mistókst og hélt hann til í suðrinu í einn mánuð í viðbót. Þegar hann ætlaði til baka var hann of seinn á staðinn þar sem björgunarbátur Norður-Kóreumanna átti að sækja hann. Seo reyndi að synda afganginn af leiðinni en straumurinn var það mikill að honum skolaði aftur á strönd suðursins. Þar var hann yfirbugaður og handtekinn af suðurkóreskum sjóliðum.

„Sem njósnari áttu að fyrirfara þér annaðhvort með því að gleypa eitraða pillu eða með því að nota vopn,“ sagði Seo og bætti við: „Það var ekki nægur tími til að fremja sjálfsvíg.“

Ljósmyndir af Seo Ok-Ryol á heimili hans.
Ljósmyndir af Seo Ok-Ryol á heimili hans. AFP

Dauðadómur

Seo var yfirheyrður af hörku í marga mánuði. Hann var laminn, auk þess sem svefn og matur var af skornum skammti. Að lokum var hann í herdómstóli dæmdur til dauða fyrir njósnir.

Hann var látinn dúsa í einangrun og borðaði aðeins litla hrísgrjónaböggla og saltaðar radísur. Á þessum tíma voru þó nokkrir aðrir norðurkóreskir njósnarar og aðrir sem tengdust Norður-Kóreu teknir af lífi.

Árið 1963 var dauðadómur Seo mildaður af þeirri ástæðu að hann var nýgræðingur þegar kom að njósnum og hafði mistekist ætlunarverk sitt. Tíu árum síðar var hann samt aftur dæmdur til dauða fyrir að reyna að fá annan fanga til að snúast til kommúnisma. 

Suðurkóreski herinn reyndi að „endurmennta” norðurkóreska fanga með því að reyna að fá þá til að snúa af villu síns vegar og náðu þær aðferðir hámarki um miðjan áttunda áratuginn. Aðgerðasinnar og fyrrverandi fangar segja að menn hafi oft verið lamdir og beittir vatnspyndingum, sveltir og þeim haldið vakandi. Einnig var þeim varpað inn í litla og myrka „refsiklefa”.

Seo hélt engu að síður sínu striki, jafnvel þótt hann hefði brunnið á vinstra auga. Síðar missti hann augað.

„Þeir sögðu mér að snúa við blaðinu og lofuðu að þá myndu þeir fara með mig til læknis. Ég neitaði. Jafnvel þótt það þýddi að ég myndi missa augað, þá verð ég að standa fastur á skoðunum mínum. Pólitísk hugmyndafræði mín er mikilvægari en líf mitt,” sagði hann.

AFP

Trump „algjör brjálæðingur“

Eftir þrjá áratugi í fangelsi komst Seo að samkomulagi árið 1991 um að fylgja lögum suðursins.

Hann fékk reynslulausn og flutti í borgina Gwangju í suðri, skammt frá fæðingarstað sínum og systkinum. Hann dreymdi samt um að snúa aftur til eiginkonu sinnar og sona í sameinaðri Kóreu.

Seo er staðfastur þegar kemur að hollustu sinni við norðrið og segir það jafnréttissinnað þjóðfélag þar sem hann gat útskrifast úr Kim Il Sung-háskólanum á ríkisstyrkjum.

Í þröngri leiguíbúð sinni ver hann kjarnorku- og eldflaugaáætlun Pyongyang og segir hana nauðsynlega til að vernda landið frá Bandaríkjunum. Hann segir Donald Trump Bandaríkjaforseta vera „algjöran brjálæðing”.

Seo Ok-Ryol skoðar blævæng með skilaboðum frá stuðningsmönnum sínum.
Seo Ok-Ryol skoðar blævæng með skilaboðum frá stuðningsmönnum sínum. AFP

„Takk fyrir að vera á lífi“

Gwangju er staðsett í vinstrisinnuðum hluta Suður-Kóreu og hafa 25 hópar aðgerðarsinna í borginni sett undirskriftasöfnun í gang þar sem farið er fram á það við stjórnvöld að aðrir fyrrverandi fangafélagar hans verði sendi aftur til síns heima. Hóparnir segja að það samkomulag sem þeir gerðu hafi verið þvingað fram.

Nokkrum árum eftir að Seo losnaði úr fangelsi hafði kóresk kona sem bjó í Þýskalandi en heimsótti Pyongyang samband við hann og sagði honum að eiginkona hans og synir væru enn á lífi. Hún ráðlagði honum að hafa ekki samband við þau af ótta við að það hefði slæm áhrif á starfsferil sonanna.

Seo, sem hefur ekki kvænst á nýjan leik, var nánast orðlaus þegar AFP-fréttastofan spurði hann hvað hann myndi segja við konuna sína ef hann hitti hana aftur.

„Ég myndi segja: „Takk fyrir að vera á lífi,” sagði hann. „Ég hef saknað þín. Ég bjóst aldrei við því að við yrðum aðskilin í svona langan tíma.”

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert