Saka endurskoðandann um njósnir

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Páfagarður upplýsti loksins í dag um hvers vegna yfirendurskoðandi, sem hætti án útskýringa í júní, var látinn fara. Ástæðan var sú að hann hafði orðið uppvís að því að njósna um yfirmenn í Páfagarði.

Í viðtali við fjóra fjölmiðla fyrr í dag greindi fyrrverandi endurskoðandi Páfagarðs, Libero Milone, frá því að hann hafi ekki sagt upp af fúsum og frjálsum vilja heldur hafi hann verið þvingaður til þess. Í viðtali við Corriere della Sera sagði hann að honum hafi verið hótað handtöku ef hann segði ekki upp.

Milone bætti um betur og sakaði Páfagarð um að hafa losað sig við hann vegna rannsóknar hans á mögulega ólöglegu athæfi innan Páfagarðs. Rannsóknin hafi snert hátt setta einstaklinga. Nokkrum klukkutímum sendi Páfagarður frá sér yfirlýsingu um að skrifstofa Milone hafi ólöglega ráðið utanaðkomandi fyrirtæki til þess að njósna um einkalíf meðlimi páfastóls. Afar sjaldgæft er að kaþólska kirkjan sendi frá sér yfirlýsingar um innanhússmál. 

Milone sagði að háttsettir einstaklingar innan Páfagarðs vildu koma í veg fyrir áform páfa varðandi endurskipulagningu fjármála. 

„Ég finn til með páfa. Ég átti í mjög góðu samstarfi við hann en síðustu átján mánuðina komu þeir í veg fyrir að ég hitti hann. Auðvitað vildu þeir ekki að ég segði honum frá ýmsu því sem ég hafði séð,“ sagði Milone í viðtali. 

Hann hafi ráðið utanaðkomandi fyrirtæki til þess að fara yfir tölvur endurskoðunardeildarinnar til þess að kanna hvort þær væru hleraðar. Það var fyrirtækið sem Páfagarður telur að hafi njósnað fyrir Milone. Hann þvertekur fyrir það og segist aðeins hafa verið að vinna vinnuna sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert