Faldi kíló af gulli í endaþarmi

Gullinu og skartinu var vandlega vafið inn í plast.
Gullinu og skartinu var vandlega vafið inn í plast. Ljósmynd/Tollayfirvöld Sri Lanka

Yfirvöld á Sri Lanka handtóku nýverið mann sem reyndi að smygla tæplega kílói af gulli og skartgripum í endaþarmi sínum.

BBC greinir frá því að tollverðir á Colombo-flugvellinum í Sri Lanka hafi stöðvað mann sem var á leið til Indlands og að við líkamsleit hafi fundist 904 g af skarti í endaþarmi hans. Er fundurinn metinn á 4,5 milljónir rúpía, eða hátt í 3,2 milljónir íslenskra króna.

Sambærileg mál hafa komið upp á síðustu árum, en algengt er að smyglarar kaupi gull í Dubaí og Singapore þar sem að það er tiltölulega ódýrt og flytji til Indlands þar sem þeir selji það með hagnaði.

BBC hefur eftir tollverði að þeir hafi stöðvað manninn af því að „göngulag hans hafi verið grunsamlegt“.

Það var svo með aðstoð málmleitartækja sem borin voru kennsl á fundinn, en skartið var vandlega vafið inn í litla plastpoka.

Vika er frá því að tollayfirvöld í Sri Lanka stöðvuðu konu á leið til Indlands, sem reynt hafði að smygla 315 g af gulli í endaþarmi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert