Kushner notaði einkanetfang fyrir Hvíta húsið

Trump ásamt ráðgjafa sínum og tengdasyni, Jared Kushner.
Trump ásamt ráðgjafa sínum og tengdasyni, Jared Kushner. AFP

Jared Kushner, tengdasonur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, hefur notað einkanetfang sitt í tengslum við störf sín í Hvíta húsinu. BBC segir lögfræðing Kushners hafa staðfest þetta, en Kushner er meðal æðstu ráðgjafa forsetans og er giftur Ivönku Trump dóttur hans.

Í kosningabaráttunni gagnrýndi Trump mótframbjóðanda sinn Hillary Clinton harðlega fyrir að nota einkanetfang sitt er hún gegndi embætti utanríkisráðherra.

Hvatti Trump stuðningsmenn á kosningafundum sínum oft og iðulega til að kyrja „læsum hana inni“ og hét því að fangelsa Clinton vegna ásakana um að hún kunni að hafa farið illa með trúnaðarupplýsingar. Rannsókn á þeim ásökunum í garð Clinton lauk án þess að ákæra væri lögð fram.

Tugir tölvupósta bárust á milli Kushners, úr einkanetfangi hans, og annarra embættismanna Hvíta hússins um málefni sem tengjast fjölmiðlaumfjöllun og skipulagningu viðburða að því er vefurinn Politico greinir frá.

Ekkert bendir þó til þess að Kushner hafi nýtt einkanetfang sitt til fjalla um trúnaðarupplýsingar.

„Kushner notar Hvíta húss netfangið sitt til að sinna störfum Hvíta hússins,“ sagði í yfirlýsingu frá lögfræðingi hans Abbe Lowell.

„Innan við hundrað póstar frá því í janúar og til loka ágúst voru annaðhvort sendir af Kushner í gegnum einkanetfangið eða sem svar frá honum við póstum kollega í Hvíta húsinu.

Yfirleitt eru þetta fréttagreinar eða pólitískar greinar sem er verið að áframsenda og þetta gerðist oftast þegar einhver átti frumkvæðið að senda póstinn á einkanetfang hans, frekar en netfang hans í Hvíta húsinu,“ sagði Lowell.

Tekið er fram í alríkisreglugerðum hvernig fara eigi með gögn tengd forsetaembættinu eða starfi ríkisstjórnarinnar. Segir BBC að með því að nota einkanetfang sé hægt að gera gögn óaðgengileg fyrir blaðamenn og þingmenn sem óska gagna á grundvelli upplýsingalaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert