Obama ræddi lygafréttir við Zuckerberg

Barack Obama.
Barack Obama. AFP

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hvatti stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg, til að stemma stigu við fjölgun lygafrétta á samfélagsmiðlinum. Obama ræddi þetta við Zuckerberg á fundi þeirra tveggja skömmu eftir kosningarnar í fyrra. Washington Post greindi frá þessu í gær.

Obama og Zuckerberg ræddu saman í Lima í Perú 19. nóvember en þar voru þeir báðir á ráðstefnu leiðtoga heimsins. Þetta er tveimur mánuðum áður en Donald Trump var settur í embætti forseta og nokkrum dögum eftir að Zuckerberg hafði vísað á bug fréttum um að Rússar hefðu haft veruleg áhrif á niðurstöðu forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Zuckerberg á að hafa greint Obama frá því að þessum lygafréttum hafi ekki verið dreift víða á Facebook og því hafi fyrirtækið átt erfitt um vik að koma í veg fyrir slíkar lygafréttir. 

Nýverið greindu forsvarsmenn Facebook frá því að miðillinn myndi afhenda bandaríska þinginu upplýsingar um auglýsingar sem keyptar voru af einhverjum gervimönnum tengdum Rússum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert