Svindlað á króatískum neytendum?

Matvælaframleiðandinn HiPP hyggst endurútgefa eina tegund af barnamat eftir að prófanir leiddu í ljós að krukkur seldar í Austur-Evrópu innihéldu minna hlutfall grænmetis og omega-3 en krukkur seldar á vesturlöndum.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar á vegum króatísku matvælastofnunarinnar benda til þess að umtalsverður munur sé á samsetningu innihaldsefna í krukkum af HiPP barnamat eftir því hvort þær eru seldar í Króatíu eða Þýskalandi.

Krukkur af HiPP hrísgrjónum með gulrótum og kalkún sem seldar voru í Þýskalandi reyndust innihalda 38% gulrætur og kartöflur og 15% hrísgrjón, á meðan krukkurnar sem seldar voru í Króatíu innihéldu 24% gulrætur og 21% hrísgrjón.

Þá reyndist nokkur munur á lit, bragði og lykt matarins, auk þess sem þýsku krukkurnar innihéldu 1,9% af repjuolíu, sem inniheldur omega-3 fitusýrur, á meðan króatísku krukkurnar innihéldu 1,7% af olíunni.

Niðurstöðurnar eru í takt við ásakanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem segir fjölþjóðleg fyrirtæki svindla á neytendum í Austur-Evrópu með því að selja þeim gæðaminni vörur.

Talsmaður HiPP hefur sagt að rétt hafi verið greint frá innihaldi krukkana utan á þeim en umræðan um „ólíkar uppskriftir í Evrópulöndunum“ gæti mögulega leitt til mistúlkana. Til að bregðast við yrði króatíska uppskriftin uppfærð í takt við þýsku uppskriftina.

Þetta var ekki eina misræmið sem rannsóknin króatíska leiddi í ljós en rannsakendur komust m.a. að því að Nutella í Króatíu innihélt mysuduft og 6,6% af mjólkurdufti, á meðan Nutella í Þýskalandi innihélt aðeins mjólkurduft, þ.e. 7,5%.

Þá reyndist Ariel þvottaefni skila betri niðurstöðum við 40 og 60 gráðu hita í Þýskalandi en í Króatíu.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert