Erdogan varar við hættu á stríði

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, varar Massud Barzani, forseta sjálfstjórnarhéraðs Kúrda, við að krefjast sjálfstæðis Kúrdistan, þrátt fyrir að niðurstaða atkvæðagreiðslu bendi til þess að meirihluti Kúrda sé hlynntur því að lýsa yfir sjálfstæði. Erdogan segir að krafa Kúrda um sjálfstæði muni koma af stað innanlandsátökum milli ólíkra þjóðernishópa.

Frétt mbl.is: Búast við stórsigri sjálfstæðissinna

Kúrdar í norðurhluta Íraks greiddu atkvæði í gær um það hvort þeir ættu að lýsa yfir sjálfstæði sínu. Kosningaþátttaka var í kringum 72%. Talningu atkvæða er ekki lokið en allt bendir til þess að mikill meirihluti Kúrda vilji lýsa yfir sjálfstæði. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er þó ekki bindandi.

„Ef Barzani og sjálfsstjórn hans draga þessi mistök sín ekki til baka sem fyrst verður hans minnst í sögunni með skömm fyrir að hafa dregið hérað sitt inn í stríð á grundvelli sértrúar og þjóðernis,“ segir Erdogan.

Fjöldi Kúrda er búsettur í Tyrklandi og hefur Erdogan ítrekað að lýsi Kúrdar yfir sjálfstæði muni yfirvöld í Tyrklandi íhuga allar mögulegar refsiaðgerðir, allt frá efnahagslegum til hernaðarlegra.

Erdogan lýsti því jafnframt yfir að ekkert ríki, að Ísrael undanskildu, væri tilbúið til að viðurkenna sjálfstæði Kúrdistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert