Hugsanlega kona sem hvarf 2013

mbl.is/Atli Steinn

Lögreglan í Noregi rannsakar nú hvort líkamsleifar, sem fundust í Finnmörk í norðurhluta landsins, kunni að tilheyra konu sem hvarf árið 2013. Líkamsleifarnar fundust í Pasvik í sveitarfélaginu Sør-Varanger samkvæmt frétt blaðsins VG.

Konan, Kaisa Beddari, var 85 ára þegar hún hvarf sporlaust en hún er eina manneskjan sem tilkynnt hefur verið um að hafi horfið á svæðinu. Tilkynning barst lögreglu um líkamsleifarnar á föstudaginn. Líkamsleifarnar fundust um kílómetra frá þeim stað þar sem Beddari bjó. Haft er eftir lögreglunni að fyrir vikið sé líklegt að líkamsleifarnar séu hennar.

Talið er að Beddari hafi farið út til þess að tína ber. Sjónarvottar sáu hana halda á körfu til þess að tína ber í skömmu áður en hún hvarf. Víðtæk leit fór fram að henni en án árangurs. Leit var formlega hætt í nóvember 2013 og var hún úrskurðuð látin í apríl árið eftir.

Rannsókn lögreglunnar heldur áfram en að hennar sögn er of snemmt að segja nokkuð til um dánarorsök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert