Tillerson fundar um N-Kóreu í Kína

Rex Tillerson.
Rex Tillerson. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun ferðast til Kína síðar í vikunni. Tilgangur ferðarinnar er að reyna að ræða við kínverska ráðamenn um hvernig megi minnka kjarnavopnahættuna sem stafar af Norður-Kóreu.

„Tillerson mun ræða fjölda mála, þar á meðal fyrirhugaða ferð forsetans til Kína. Einnig mun hann ræða kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga,“ sagði Heather Nauert, talsmaður utanríkisráðuneytisins.

Donald Trump heldur í sína fyrstu opinberu heimsókn til Kína í nóvember en í sömu ferð fer hann einnig til Japans og Suður-Kóreu.

Bandarísk yfirvöld hafa bæði hrósað og skammast í Kínverjum yfir því hvernig þeir hafa tekið á málefnum nágranna sinna í Norður-Kóreu. Nauert sagði að Kína hefði upp á síðkastið tekið stór skref í rétta átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert